UFC 211 fer fram í nótt í Dallas, Texas. Spámaður helgarinnar fyrir þetta magnaða bardagakvöld er Orri Sigurður Ómarsson.
Orri spilar knattspyrnu með Val í Pepsi-deildinni og á að baki tvo landsleiki með A-landsliði Íslands. Gefum honm orðið.
Ég byrjaði að fylgjast með UFC þegar UFC 189 var í gangi. Ég vissi ekkert um sportið né hverjir voru að berjast, ég vissi ekki einu sinni hver Conor var. Eina sem var á hreinu var að Gunni var að berjast og ég ætlaði að horfa á hann. Hins vegar var ég aðeins of seinn í því og þar sem að Gunni kláraði Thatch á örfáum sekúndum þá missti ég af bardaganum og fór aftur að sofa. Eftir að hafa horft á allt main cardið daginn eftir varð ég heillaður af sportinu og að mínu mati er Lawler gegn MacDonald einn besti bardagi frá upphafi.
Í dag fylgist ég með nánast öllum bardögum í UFC og horfi á allt sem ég get. Ég er mjög auðveldlega heillaður þegar ég horfi á bardagamenn og er kannski Cody Garbrandt gott dæmi um það en ég sagði að hann yrði meistari eftir að hann vann Almeida.
Millivigt: Krisztof Jotko gegn David Branch
Ég verð að viðurkenna að þetta er eini bardaginn á main cardinu þar sem ég þekki hvorugan bardagamanninn. Ég ætla hins vegar að spá Pólverjanum Jotko sigur í þessum bardaga. Þar fer ég einungis eftir styrkleikalistanum og mér finnst frekar ólíklegt að maður sem er ekki rankaður eða með mynd af sér á heimasíðu UFC sé að fara vinna pólskan bardagamann sem er rankaður nr. 9. Ég spái Jotko sigur eftir dómaraúrskurð.
Fjaðurvigt: Frankie Edgar gegn Yair Rodriguez
Þessi bardagi er virkilega spennandi og erfitt að spá fyrir um úrslitin. Ég held samt að Yair sé að reyna við ofurefli þar sem að ég tel að Edgar ætti að vera meistarinn í þessari deild þar sem ég var á hans hlið í bardaganum á móti Aldo. Edgar er klárlega topp 2-3 í þessari deild og ég held að hann taki þennan bardaga. Yair mætir svaðalega ýktur eftir sigur á móti útbrunnum BJ Penn og lætur rota sig í lotu 2.
Veltivigt: Demian Maia gegn Jorge Masvidal
Áður en ég spái þessum bardaga, hversu glórulaust er að Maia sé ekki að berjast um titilinn? Það bara hljóta allir að vera sammála um að hann ætti að vera keppa um titilinn, en nóg um það. Ég ætla að spá Maia sigri í þessum bardaga. Ástæðan fyrir því er einföld. Hann er einfaldlega alltof góður. Ef að Maia fer skynsamlega inn í þennan bardaga og nær þessu single leg þá er þetta game over fyrir Masvidal. Ég spái Submission í 2. lotu fyrir Maia.
Titilbardagi í strávigt kvenna: Joanna Jedrzejcyk gegn Jessica Andrade
Svona stórt kvöld fer aldrei allt eftir bókinni og þetta verður sá bardagi þar sem veðmálasíðurnar raða inn peningunum. Jessica Andrade tekur þennan bardaga. Ég er búinn að horfa á seinasta bardaga JJ á móti Karolina ca fjórum sinnum og Karolina nær mörgum þó nokkuð góðum höggum á hana. Ég held að Andrade lendi einu og þetta verði TKO í 3.-4. lotu.
Titilbardagi í þungavigt: Stipe Miocic gegn Junior Dos Santos
Stipe Miocic er einn af mínum uppáhalds. Þetta fagn eftir að hann vann Werdum var svo einlægt og beint frá hjartanu að það er ekki annað hægt en að fýla þennan mann. Ég held að Stipe vinni JDS í 2. lotu með KO. Ég tel einfaldlega að Stipe komi með fáránlegt sjálfstraust inn í þennan bardaga og með allt Cleveland á bakvið sig. Þetta verður forvitnilegur bardagi en ég held að Stipe taki þetta þægilega.