Thursday, March 28, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 211

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 211

Um helgina fer fram hörku bardagakvöld þegar UFC 211 fer fram í Dallas, Texas. Titilibardagi í þungavigtinni, titilbardagi í strávigt kvenna og fjölmargir aðrar góðar viðureignir fara fram. Hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á bardagana í kvöld.

Heldur Stipe Miocic áfram að vera „The Baddest Man on the Planet“?

Það er alltaf gaman að horfa á titilbardaga í þungavigt. Hvað sem öllu tali um pund fyrir pund bestu menn og konur í UFC líður, þá eru það þungavigtarmennirnir sem eru raunverulegir konungar frumskógarins. Ekki skemmir fyrir að í þessu tilfelli mætast tveir einstaklega skemmtilegir og hæfileikaríkir þungavigtamenn; ríkjandi meistarinn Stipe Miocic og brasilíska ljúfmennið Junior Dos Santos.

Þungavigtarbardagar virðast oft vera hálfgert kapphlaup um hvor nær fyrsta góða högginu en þegar þú ert 120 kg er það oftast þannig að eitt gott högg er nóg til að stöðva bardagann. Það ætti ekki að vera nein breyting á í þessum bardaga en bæði Miocic og dos Santos eru sterkastir standandi. Það eru margir áhugaverðir hlutir við þennan bardaga en einn þeirra er sú staðreynd að þessir tveir hafa áður mætt hvor öðrum og í það skiptið sigraði dos Santos í mjög jöfnum bardaga. Hvað gerist nú?

Getur einhver stöðvað Joanna Jędrzejczyk?

Joanna virðist óstöðvandi í strávigtinni og virðist vera talsvert teknískari standandi en aðrar í þyngdarflokknum. Það sem andstæðingur hennar hefur fyrst og fremst upp á að bjóða er höggþungi en slíkt er sjaldgæft í strávigt kvenna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig meistarinn bregst við þeirri ógn og hvort henni tekst að nýta fótavinnuna og boxið til að sigra Andrade. Joanna hefur aldrei tapað á ferlinum, er núna 13-0 og hefur varið titilinn fjórum sinnum. Það eru miklir yfirburðir en flestir spá jöfnum bardaga á milli þessara tveggja sem gæti farið á hvorn veginn sem er.

Mun Demian Maia „single legga“ og kyrkja Masvidal?

Demian Maia þekkja allir Íslendingar sem fylgjast með MMA. Það er eitthvað svo áhugavert að fylgjast með kappa á borð við Maia, þar sem allir andstæðingar hans vita hvað hann ætlar sér að gera, og samt tekst honum ætlunarverk sitt. Maia pressar þig upp að búrinu, reynir “single leg“ fellu og þegar hann nær þér í gólfið ertu í hans heimi. Masvidal er mjög reynslumikill með 43 atvinnubardaga (Maia er með 30, þrátt fyrir að vera sex árum eldri og verið búinn að keppa í MMA í 16 ár) og hefur sýnt fram á mikinn fjölbreytileika bæði standandi og hvernig hann verst fellum. Bardaginn mun að miklu leyti snúast um hvort Maia takist að drösla Masvidal í gólfið en sigur fyrir Maia mun endanlega gulltryggja það að hann fái loks titilbardagann sem hann hefur átt skilið í nokkurn tíma.

Gamli reynsluboltinn mætir unga og upprennandi gæjanum

Í fjaðurvigtinni hefur Frankie Edgar aðeins tapað fyrir náungum sem heita José Aldo og er einn af allra sterkustu bardagaköppunum í UFC í dag. Þetta verður hörku prófraun fyrir efnilega ungstirnið Yair Rodriguez en hann er ósigraður í UFC (10-1 í MMA). Yair er með virkilega spennandi bardagastíl; tilþrifamikil spörk og óhefðbundnar snúandi árásir svo það er aldrei að vita hvað Rodriguez getur tekið upp á.

Yair hefur alla burði til að verða stjarna í UFC og hann mun að öllum líkindum vera í uppáhaldi hjá aðdáendum í Dallas en stór hluti heimamanna í Texas eru af latínskum uppruna en Yair er einmitt frá Mexíkó. Sigur fyrir Rodriguez væri risa fjöður í hattinn á meðan sigur fyrir Edgar myndi að öllum líkindum gulltrygga titilbardaga gegn Max Holloway takist honum að sigra Jose Aldo í næsta mánuði.

Nær Alvarez sér á strik eftir McGregor bardagann?

Eddie Alvarez keppir í fyrsta sinn eftir tapið gegn Conor McGregor í nóvember á síðasta ári. Þetta er ansi hátt fall fyrir Alvarez en hann fer frá því að verja léttvigtartitilinn í aðalbardaga UFC 205 í Madison Square Garden fyrir framan 20.000 manns yfir í að keppa í seinasta upphitunarbardaganum á UFC 211. Þrátt fyrir það hefur þessi bardagi hans við Dustin Poirier alla burði til að verða frábær skemmtun og margir spá því að þetta verði besti bardagi kvöldsins. Poirier er einmitt annar kappi sem hefur þurft að finna sig upp á nýtt eftir tap gegn McGregor. Eftir að hann tapaði fyrir Conor færði Poirier sig upp í léttvigtina og er 5-1 þar. Sigurvegarinn mun halda áfram að klífa metorðastigann í léttvigtinni í von um titilbardaga.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular