0

Spámaður helgarinnar: Pálmar Ragnarsson (UFC 208)

UFC 208 fer fram um helgina og líkt og fyrir öll stærstu kvöldin fáum við skemmtilega einstaklinga til að spá fyrir um kvöldið.

Spámaðurinn að þessu sinni er Pálmar Ragnarsson. Pálmar er umsjónarmaður Meistaramánaðar, bloggari á palmarragg.is og einn vinsælasti körfuboltaþjálfari landsins. Pálmar byrjaði að fylgjast með MMA í kringum UFC 145 en síðan þá hefur þetta verið eitt af hans helstu áhugamálum. Gefum honum orðið.

Ég er mjög glaður að af öllum þeim 208 UFC kvöldum sem ég hefði getað fengið að vera spámaður helgarinnar fyrir, þá hafi ég fengið úthlutað UFC 208. Ástæðan er sú að þetta er það bardagakvöld í sögu UFC sem auðveldast er að spá fyrir. Úrslit hvers einasta bardaga eru meitluð í stein. Þetta er ekki ég að giska á úrslitin, ég VEIT úrslitin.

Léttvigt: Dustin Poirier gegn Jim Miller

Dustin Poirier er búinn að vera svakalegur síðustu tvö árin. Hann var óheppinn á móti Michael Johson. Já, ÓHEPPINN. Þetta er það sem er pirrandi stundum við bardagaíþróttir. Í körfubolta ertu óheppinn og klikkar úr einu skoti en leikurinn heldur áfram. Í bardagaíþrótt ertu óheppinn í eina sekúndu og bardaginn er búinn og þú ert farinn heim. Það er nákvæmlega það sem gerðist fyrir Dustin.

Dustin er alltaf að fara að taka Jim Miller og pakka honum saman í þrjár lotur. Hann tekur þetta á dómaraákvörðun sem er aldrei spurning; 30-27 á öllum skorblöðum.

Léttþungavigt: Glover Teixeira gegn Jared Cannonier

Jared Cannonier hver? Hver er þessi maður og af hverju er hann á aðalhluta bardagakvöldsins gegn mínum manni Glover Teixeira? Hann hlýtur að vera búinn að vera að vinna einhverja svakalega bardaga upp á síðkastið þá? Uhh nei. Tveir sigrar gegn Cyril Asker og Ion Cutelaba? Getur einhver opnað Wikipedia fyrir mig…

Glover Teixeira rotar Jared Cannonier eftir um það bil 30 sekúndur í fyrstu lotu. Ég skil ekki af hverju MMA FRÉTTIR eru að borga mér tugir þúsunda fyrir spámennsku helgarinnar í einhverju sem segir sig algerlega sjálft.

Millivigt: Ronaldo ‘Jacare’ Souza gegn Tim Boetsch

Hverjum datt í hug að setja þennan bardaga saman? Ronaldo Souza er BESTI millivigtarbardagamaðurinn þarna úti. Hinn raunverulegi meistari. Valtar yfir alla sem eru ekki að svindla. Ætti fyrir löngu að vera búinn að fá titilbardaga en fær hann ekki og það mun ekki breytast með þessum sigri.

Tim Boetsch tapaði fyrir 60 ára gömlum Ed Herman fyrir ári síðan. Það er öllum sama þó hann hafi sigrað tvo miðlungs bardagamenn síðan þá. Souza klárar þennan bardaga með hengingu í 2. lotu eftir 10-8 sigur í 1. lotu.

Millivigt: Anderson Silva gegn Derek Brunson

Því miður. Anderson Silva er minn uppáhalds maður allra tíma. En því miður. Þetta er búið. Derek Brunson er að fara að GANGA FRÁ HONUM. Ég ætla að forða sjálfum mér frá því að horfa á þennan bardaga og vona að Brunson verði settur í aðeins mýkri hanska þetta kvöld.

Derek Brunson sigrar með rothöggi í 1. lotu.

Titilbardagi í fjaðurvigt kvenna: Holly Holm gegn Germaine de Randamie

Holly Holm Á 145 punda deildina. Hún er drottningin. Randamie er ekki að fara að snerta hana. Margir virðast tala um þetta sem jafnan bardaga en ég virðist vera sá eini sem geri mér grein fyrir því hversu ójafn hann er.

Er Holly búin að tapa síðustu tveimur bardögum? Já. Er einhver skömm að því að tapa fyrir Miesha Tate og Shevschenko í grimmum fimm lotu bardögum? Nei. Í 145 pundum verður Holly á heimavelli og aðrar konur verða einfaldlega að halda sig til hliðar. Randamie er virkilega flott á móti nýliðum og ágætum bardagakonum en hún tapaði fyrir Nunes á 3.56 sekúndum.

Ég spái því að Randamie þrauki aðeins lengur á móti Holm og tapi því ekki fyrr en eftir um það bil eina mínútu í 2. lotu. Holm með rothögg eftir spark.

Ef þið notið þessa spá til að græða pening þá fer ég fram á 25%.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply