spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Þráinn Kolbeinsson (UFC 205)

Spámaður helgarinnar: Þráinn Kolbeinsson (UFC 205)

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Þráinn er fyrir miðju á myndinni. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Spámaður helgarinnar fyrir UFC 205 er svartbeltingurinn Þráinn Kolbeinsson. Þráinn er spenntur fyrir bardögunum og telur að Conor McGregor muni sigra á laugardaginn.

Þráinn er yfirþjálfari í glímunni í Mjölni og hefur æft brasilískt jiu-jitsu frá 2008. Þráinn var einn af fjórum Íslendingum sem voru gráðaðir í svart belti í brasilísku jiu-jitsu af Gunnari Nelson í ár. Meðfram þjálfarastarfinu í Mjölni starfar Þráinn sem sálfræðingur á Landspítalanum. Gefum honum orðið.

Bantamvigt kvenna: Miesha Tate gegn Raquel Pennington

Meisha Tate hefur alltaf staðið sig þokkalega og aðeins tapað á móti mjög öflugum andstæðingum. Ég horfði núna á seinustu bardaga Pennington og í fljótu bragði virðist hún vera algjör nagli. Ef þessi bardagi helst standandi þá gæti ég séð Penninton fyrir mér koma á óvart og vinna. Aftur á móti ef þessi bardagi fer í gólfið þá held ég að þær eigi báðar möguleika á að ná að sýna sig fyrir dómurunum og safna stigum. Mér finnst þó líklegra að Tate hafi betur fari þetta í gólfið.

Ég ætla að segja Tate með annað hvort Rear Naked Choke eða eftir dómaraúrskurð.

Veltivigt: Kelvin Gastelum gegn Donald Cerrone

Ahhhh, ég veit ekkert um Kelvin Gastelum. En ég veit að Cerrone er kúreki og gerir bara karlmannlega hluti eins og að skjóta úr byssum, kaupa naut og laga mótorhjól.

Þetta verður óupplýstasta spá helgarinnar en Cerrone hefur litið út fyrir að vera óstöðvandi í seinustu bardögum og ég held það muni halda áfram, allavega í einhvern tíma… rothögg í 2. lotu.

Millivigt: Chris Weidman gegn Yoel Romero

Sko, ég er frekar mikill Chris Weidman maður og ég er fáránlega lítill Yoel Romero maður. Þannig það er engin spurning hvernig mig langar að þessi bardagi fari. En þegar einhver kallar sig hermann Guðs og lítur út eins og hann (pirrandi þegar það eru óvart sterar í Hámarkinu þínu) þá er eðlilegt að það færist yfir mann efi.

Ég held að Weidman eigi eftir að koma frekar brjálaður til baka eftir tapið gegn Rockhold. Hann verður samt að fara varlega svo ég ætla að segja að þessi fari á dómaraúrskurði, Weidman í vil.

Titilbardagi í strávigt kvenna: Joanna Jedrzejczyk gegn Karolina Kowalkiewicz

Ég hef lítið séð með Kowalkiewicz en þetta er mögulega flóknasta nafn sem ég hef séð. Eða kannski næst flóknast á eftir Jedrzejczyk. Eftir að hafa horft á marga bardaga með Joanna og nokkra með Karolinu er ég ekki frá því að þetta gæti orðið einn skemmtilegasti bardagi kvöldsins. Þær virðast báðar hafa frábært þol og mjög skemmtilegt striking.

Þær hafa hvorugar mikið verið að klára bardagana sína svo ég held að þessi fari líka í dómaraúrskurð eftir algjört stríð. Joanna með sigur eftir dómaraákvörðun.

Titilbardagi í veltivigt: Tyron Woodley gegn Stephen Thompson

Myndarlegi karatestrákurinn á móti glímukappanum með hægri höndina og stóra rassinn – þessi verður spennandi. Við fyrstu sýn hallast ég strax að Wonderboy en miðað við síðustu bardaga getur maður engan veginn afskrifað Woodley.

Woodley virðist vera mjög fær og öflugur glímukappi en ég hef ekki séð hann nota það mikið nema varnarlega og upp við búrið. Hann virðist miklu frekar halda fjarlægð og bíða eftir tækifæri fyrir hægri höndina sína. Ég trúi því samt að Thompson sé með miklu betra og tæknilegra striking og á sama tíma getur hann stjórnað fjarlægðinni mjög vel. Það verður spennandi að sjá hvort Woodley fari að grípa til glímunnar eða haldi bara áfram að finna heimili fyrir hægri höndina sína.

Ég held að þessi bardagi fari hægt af stað en lifni síðan við þegar líður á. Ég spái Thompson sigri með rothöggi í 4. lotu, vonandi með einhverju rosalegu sparki.

conor McGregor Eddie Alvarez UFC New York

Titilbardagi í léttvigt: Eddie Alvarez gegn Conor McGregor

Þessi verður rosalegur! Ef þetta verður striking bardagi mun Conor taka hann. Þess vegna finnst mér líklegt að Alvarez muni snemma í bardaganum fara að reyna að ná Conor niður eða upp við búrið. Ég hugsa að hann muni eiga í erfiðleikum með að ná honum niður og ef hann nær því er ég ekki viss um að hann nái að gera mikið úr því. Alvarez hefur þó sýnt að hann er mjög harður af sér en mér finnst hann ekki hafa verið neitt mjög sannfærandi í seinustu bardögum. En á sama tíma er hann augljóslega einhver sem má ekki vanmeta.

Það eru einhver smá ónot í mér fyrir þessum bardagana, en ég held að Conor taki þetta með rothöggi í þriðju lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular