UFC 205 fer fram í Madison Square Garden í New York í kvöld. Þetta verður sögulegt bardagakvöld fyrir margar sakir og stærsti MMA viðburður allra tíma.
Í dag, 12. nóvember, eru akkúrat 23 ár síðan UFC hélt sitt fyrsta bardagakvöld. UFC 1 fór fram þann 12. nóvember 1993 í Denver fyrir framan 7.800 áhorfendur.
Nú, 23 árum síðar heldur UFC sitt 376. bardagakvöld þar sem búist er við um 20.000 áhorfendum. Miðasalan fyrir viðburðinn nemur 17 milljónum dollurum sem er lang mesta miðasala í sögu UFC og er met í Madison Square Garden.
Fyrra metið í MSG var sett þegar þeir Lennox Lewis og Evander Holyfield mættust árið 1999 en þá nam miðasalan 11 milljónum dollurum (15,9 milljónir leiðrétt að núverandi verðbólgu). Fyrra miðasölumet UFC var sett á UFC 129 þegar UFC seldi miða fyrir 12 milljónir dollara.
Mögulega mun UFC bæta „Pay Per View“ metið sitt en fyrra metið var sett á UFC 202 þegar Conor McGregor og Nate Diaz mættust öðru sinni. Þá seldi UFC 1,65 milljón PPV og gæti það met verið slegið í kvöld.
Það er viðeigandi að þessi risa viðburður fari fram í einni sögufrægustu höll allra tíma í New York. UFC hefur lengi reynt að komast í New York og það tókst loksins í ár eftir að MMA var lögleitt í ríkinu.
Að auki gæti Conor McGregor orðið sá fyrsti í sögunni til að vera meistari í tveimur flokkum á sama tíma takist honum að sigra Eddie Alvarez í kvöld. Svo má ekki gleyma því að í kvöld fer fram fyrsti evrópski titilbardaginn á milli þeirra Joanna Jedrzejczyk og Karolinu Kowalkiewicz.
Þetta verður því svo sannarlega sögulegt kvöld og getum við vart beðið eftir fjörinu. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst á miðnætti en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.