Eftir tíðindi síðustu tveggja daga er ekki hægt annað en að dást svolítið að Conor McGregor. Það er ekki hægt að segja annað en að maðurinn standi við stóru orðin.
Flestir, ef ekki allir, bardagamenn segjast vilja berjast við hvern sem er, hvenær sem er. Þegar á hólminn er komið standa hins vegar ekki allir við stóru orðin sem er oft á tíðum vel skiljanlegt (eins og Jose Aldo gerði).
Conor McGregor hefur reitt nánast alla bardagamenn í fjaður- og léttvigt UFC til reiði með kjaft sínum og enn sem komið er staðið við stóru orðin. McGregor segist vilja berjast við hvern sem er og hvar sem og sýndi það í gær.
Írinn átti að mæta léttvigtarmeistaranum Rafael dos Anjos á UFC 196 en vegna meiðsla þurfti dos Anjos að draga sig úr bardaganum. Þess í stað mætir hann Nate Diaz, allt öðruvísi andstæðingi, og það í veltivigt! Tveimur þyngdarflokkum ofar en fjaðurvigtin þar sem McGregor er meistari.
Upphaflega átti bardaginn að fara fram í léttvigt og hefði niðurskurðurinn verið erfiður fyrir Nate Diaz með svo skömmum fyrirvara. Samkvæmt Ariel Helwani sagði McGregor að bardaginn mætti vera í veltivigt, „segðu honum að koma sér þægilega fyrir,“ á McGregor að hafa sagt.
… McGregor adds one more note:
“Make it 170,” he says. “Tell him to get comfortable.”
The fight is made. At welterweight. #ufc196
— Ariel Helwani (@arielhelwani) February 24, 2016
Ætli það sé ekki óhætt að fullyrða að fáir hefðu samþykkt nýjan andstæðing með 11 daga fyrirvara, þyngdarflokki ofar og ekki um belti. Það verður skrítið og einstakt að heyra Bruce Buffer tilkynna fjaðurvigtarmeistarann til leiks í veltivigtarslag gegn Nate Diaz. Þvílíkir tímar sem við lifum á.
Conor McGregor er auðvitað ekki allra og margir sem hafa óbeit á skítkasti hans í garð annarra bardagamanna. Það verður þó ekki tekið af honum að hann er með stálhreðjar og hefur hingað til staðið við stóru orðin.