Sunna Rannveig Davíðsdóttir er komin með sinn næsta bardaga í Invicta FC. Sunna mætir Mallory Martin þann 25. mars.
Sunna Rannveig skrifaði undir samninginn fyrr í kvöld og hefur Invicta tilkynnt þetta nú þegar. Bardaginn fer fram á Invicta FC 22 í Kansas í Bandaríkjunum rétt eins og síðast.
Andstæðingur hennar, Mallory Martin, er 1-0 sem atvinnumaður í MMA rétt eins og Sunna. Þetta verður frumraun Martin í Invicta en hún er bandarísk og æfir hjá Zingano BJJ. Samkvæmt Sherdog var hún með þrjá áhugamannabardaga, allt sigrar, áður en hún tók skrefið í atvinnumennskuna. Það má þó vera að bardagarnir séu fleiri en ekki skráðir í Sherdog gagnabankanum. Martin barðist síðast í desember þegar hún sigraði andstæðing sinn eftir dómaraákvörðun.
Sjá einnig: Sunna Rannveig – Himinlifandi með að vera á leiðinni aftur í búrið
Sunna Rannveig barðist sinn fyrsta bardaga í Invicta í september þegar hún sigraði Ashley Greenway eftir dómaraákvörðun. Það var fyrsti atvinnubardaginn hennar og sýndi Sunna að hún ætti vel heima í Invicta. Í lok síðasta árs var Sunna svo kjörin nýliði ársins í bardagasamtökunum.
Í aðalbardaga kvöldsins mætast þær Tonya Evinger og Yana Kunitskaya um bantamvigtartitilinn. Þær Evinger og Kunitskaya mættust í nóvember en bardaginn endaði með umdeildum hætti svo þær munu berjast aftur.