spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig: Hlakka svakalega til að fara í búrið

Sunna Rannveig: Hlakka svakalega til að fara í búrið

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir mætir Mallory Martin í kvöld á Invicta bardagakvöldinu í Kansas. Sunna er tilbúin í slaginn.

Bardaginn er þriðji bardagi kvöldsins á Invicta FC 22 bardagakvöldinu í kvöld. Bardagakvöldið verður sýnt í heild sinni á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending á miðnætti.

Sunna kom til Kansas á mánudaginn og hefur aðlagast tíma- og loftslagsmun vel. „Þetta er í annað skiptið sem ég kem hingað. Ég vissi því nákvæmlega hvað ég var að fara út í og passaði mig að vera einum degi fyrr á ferðinni en seinast til að geta verið alveg slök og búin að aðlaga mig áður en dagskráin hófst. Það er allt búið að ganga ofbðslega vel fyrir sig hvort sem það er fjölmiðladagurinn, köttið eða vigtunin og núna er það bara það sem ég kom hingað til að gera sem er eftir. Þetta hljómar kannski skringilega fyrir einhverjum en ég hlakka bara alveg svakalega til að fara í búrið og sýna úr hverju ég er gerð,” segir Sunna.

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Í gærmorgun fór alvöru vigtunin fram fyrir lokuðum dyrum. Niðurskurðurinn hjá Sunnu gekk afar vel og var hún á undan áætlun með sína þyngd allan tímann. Sunna var 115,8 pund (52,5 kg) á vigtinni í gær en andstæðingurinn, Mallory Martin, 114, 8 pund. Báðar voru innan settra skekkjumarka og þar af leiðandi klárar í stóra slaginn. Síðar í gær fór svo fram svokallað „face off“ þar sem Sunna mætti loksins andstæðing sínum á sviði, augliti til auglits.

„Hún sendir frá sér góða strauma. Ég skynja hana sem svo að hún sé bara góð stelpa sem er drifin af ástríðu fyrir bardagaíþróttum. Ég fann alveg þegar ég stóð á móti henni að hún hefur hjarta og er til í slaginn. Hún er komin til að berjast, og það er gott, því það er ég líka.“

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Undirbúningurinn fyrir bardagann hefur gengið vel. Bardaginn var staðfestur í byrjun febrúar og hafa æfingabúðirnar staðið yfir í átta vikur.

„Það er margt öðruvísi núna en það var seinast. Fyrir það fyrsta þá erum við búin að flytja Mjölni í Öskjuhlíðina þar sem aðstaðan er ekki bara góð heldur frábær. Síðan er bara búinn að vera svo mikill bardagahugur í öllum í liðinu. Margir búnir að vera að gera sig klára til að berjast og það hleypir náttúrulega nýju level af ákefð í alla. Það voru tveir strákar sem börðust í febrúar og unnu báðir sína bardaga, svo tók Gunni Nelson við um síðustu helgi og það vita nú allir landsmenn hversu vel sú viðureign fór. Keppnislið Mjölnis er vel samsett og eru miklir hæfileikar í okkar búðum. Margir bardagamenn eru að blómstra og ferillinn hjá mörgum okkar er að takast á flug akkúrat núna.“

„Það njóta allir í liðinu góðs af því ekki síðst ég. Svo höfum við verið dugleg við að fá utanaðkomandi þjálfara og bardagafólk sem hefur æft með okkur. Það var heimsklassa wrestlingþjálfari, Matthew Miller, sem var hjá okkur í fimm vikur og ég nýtti mér heldur betur að hafa aðgengi að honum og svo kom vinkona mín, UFC bardagakonan Jojo Calderwood, og æfði með okkur í 10 daga. Hún kom líka með okkur hingað út til Kansas og það er búið að vera frábært að hafa hana með. Hún hefur séð þetta allt og gert þetta allt og svo er hún bara besti æfingafélagi sem ég gæti haft í aðdraganda þessa bardaga. Það er mikið af góðu fólki í kringum mig frá öllum hliðum sem styður mig og gerir mér kleyft að elta drauminn minn. Ég veit að það er ekki sjálfgefið og ég vakna þakklát á hverjum morgni.”

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Jón Viðar Arnþórsson, yfirþjálfari og forseti Mjölnis, er með Sunnu í för og veit manna best hversu mikið hún hefur þróast sem bardagakona frá því að hún gekk til liðs við Mjölni árið 2012.

„Sunna er búin að æfa eins og berserkur alveg frá því að hún fékk bardagann staðfestann. Hún leggur svo hart að sér og hún hefur svo mikinn metnað fyrir því að bæta sig stöðugt. Það er því búið að vera frábært að vinna með henni í þessum undirbúningi og ég er ekki að hagræða sannleikanum neitt þegar ég segi að hún hafi aldrei litið betur út. Hún verður betri með hverri æfingu,“ segir Jón Viðar.

„Við tókum síðustu æfinguna hér í Kansas í fyrradag og það var rosalegt að sjá hana. Hrikalega snögg, sterk og tæknileg. Svo er hausinn á henni bara á svo góðum stað. Hún er andlega sterk og með svo rétt viðhorf til verkefnisins sem framundan er. Ég er alltaf bjartsýnn en ég er mjög meðvitaður um að það er engin af þeim bardagakonum sem eru hér í Invicta fyrir tilviljun. Mallory Martin er góð bardagakona og þetta verður ekki auðveldur bardagi, en í því formi sem Sunna er núna þá er ég ekki að sjá þetta öðruvísi en að hún endi með höndina upprétta. Ég get ekki beðið eftir að sjá hana stíga inn í búrið á morgun.“

Þegar Sunna er sjálf aðspurð þá hefur hún lítinn áhuga á að bregða sér í hlutverk Nostradamusar. Hún hefur mikið sjálfstraust og er sannfærð um að hún hafi hagað sínum undirbúningi eins og best er á kosið.

„Þegar ég kom hingað til Kansas í september og barðist minn fyrsta atvinnubardaga þá var svo margt nýtt fyrir mér og skiljanlega var eitt og annað sem dreifði huganum. Núna er ég búin að hafa bara einn fókus og hef bara verið með það eitt í huga að vera besta útgáfan af sjálfri mér þegar búrið lokast. Ég er að keppa í úrvalsdeildinni hérna. Það er engin af þessum stelpum hérna sem er ekki búin að vinna sér inn fyrir því að vera hérna og þær vita allar að hér hjá Invicta er hægt að eiga farsælan atvinnuferil. Sú sem ég mætti seinast, Ashley Greenway, var án vafa besti andstæðingur minn til þessa. Þegar við börðumst þá fann ég að það þurfti bara einhver smávægileg mistök af minni hálfu til þess að hún gæti snúið stöðunni sér í hag. Sem betur fer var það hún sem gerði mistökin í þeim bardaga og ég gat nýtt mér þau.“

„Mallory Martin er annars konar bardagakona en Ashley Greenway og ég geri algjörlega ráð fyrir að hún verði sú öflugasta sem ég hef tekist á við. Hún þarf að vera undirbúin fyrir það sama. Ég er búin að bæta mig mikið síðan ég barðist seinast og er búin að læra margt sem ég kunni ekki þá. Ég er tilbúin í bardagann að öllu leyti og hlakka bara til kvöldsins. Ég á tækifæri til að búa mér og dóttur minni gott líf og bjarta framtíð í gegnum þessa íþrótt. Ég er búin að leggja á mig mikið erfiði og færa miklar fórnir til að komast hingað sem ég er komin og hverri þeirri sem reynir að standa í vegi fyrir mér er hollast að vera tilbúin til að berjast sinn besta bardaga.”

Með öðrum orðum, Sunna er tilbúin!

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular