0

Svindlaði Kelvin Gastelum í vigtuninni?

Kelvin Gastelum vigtaði sig inn fyrr í dag fyrir bardagann gegn Darren Till. Gastelum virðist halla sér að þjálfara sínum þegar hann er á vigtinni sem gæti haft áhrif á vigtina.

Kelvin Gastelum var á síðustu stundu í vigtuninni í New York í morgun. Hann steig á vigtina þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af vigtuninni og þurfti handklæðið enda þurfti hann að fara úr nærbuxunum líka.

Gastelum virtist vera á tæpasta vaði þar sem hann þurfti handklæðið en reyndist síðan vera 184 pund eða tveimur pundum undir. Óþarfa stress greinilega.

Við nánari athugun má sjá að Gastelum hallar sér aðeins að þjálfara sínum, Rafael Cordeiro, með hægri olnboga sínum. Starfsmaður íþróttasambandsins í New York sem sá um vigtunina bað Gastelum tvisvar um að hafa hendurnar meðfram síðu en Gastelum hlýddi ekki. Gastelum náði vigt og fagnaði með þjálfara sínum.

Flestir ættu að muna eftir handklæðasvindli Daniel Cormier á UFC 210 í New York árið 2017. Cormier var 1,2 pundi yfir en kom aftur 150 sekúndum seinna og var þá skyndilega akkúrat 1,2 pundi léttari. Þá sást Cormier halla sér verulega á handklæðið og var atvikið vægast sagt vafasamt.

Það má sjá að Gastelum snerti greinilega Cordeiro með olnboga sínum en hvort það hafði áhrif á vigtunina er erfitt að segja. Bardaginn er þó á sínum stað og ekkert sem aðdáendur geta gert nema velt því fyrir sér hvort Gastelum hafi verið örlítið of þungur.

UFC 244 fer fram á laugardaginn þar sem Kelvin Gastelum mætir Darren Till. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Jorge Masvidal og Nate Diaz.

UPPFÆRT

Kelvin Gastelum fær einhverja refsingu frá íþróttsambandinu í New York (NYSAC). NYSAC skoðaði myndefni af atvikinu og mun refsa Gastelum sennilega í formi sektar en bardaginn fer fram eins og til stóð.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.