Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaTæknin: Lágspörk

Tæknin: Lágspörk

Lágspörk er gríðarlega skemmtileg tækni og er ekki óalgengt að sjá það í sparkboxi og MMA. Þá er sparkað í læri andstæðings og getur sársaukinn verið lamandi. MMA kappar á borð við Jose Aldo, Donald Cerrone og Edson Barboza eru virkilega flinkir í tækninni en fræðumst aðeins meira um þessa tækni.

Þeir sem hafa fengið gott lágspark (e. lowkick) í lærið þekkja vel sársaukann sem fylgir. Urijah Faber fékk t.d. að vita allt um lágspörk þegar hann áttist við fjaðurvigtarmeistara UFC, Jose Aldo. Jose Aldo hitti í 25 skipti í lærið á Faber en eins og sjá má á myndinni hér að neðan voru þetta föst högg.

faber
Lærið á Faber var illa farið eftir bardagann gegn Jose Aldo.

Sá bardagamaður sem á bestu tæknina þegar kemur að lágspörkum er líklegast fjórfaldi K-1 heimsmeistarinn Ernesto Hoost. Hollendingurinn 48 ára hætti árið 2006 í sparkboxi og er talinn ein af goðsögnunum í heimi sparkboxara. Nú eftir 8 ára pásu ætlar hann að berjast aftur gegn Thomas Stanley fljótlega. Hoost keppir í þungavigt og hefur sigrað 97 bardaga af 119 en þar af komu 62 sigrar með rothöggi.

Það eru nokkrir hlutir sem gera lágspörk Hoost svona góð. Hvort sem það er fella, krókur eða lágspark þá þarf að setja hlutina upp til að þeir virki. Það þarf einfaldlega að láta andstæðinginn halda að verið sé að gera eitthvað allt annað en verið er að gera. Þá er mun erfiðara fyrir andstæðinginn að verjast og hann er líklegri til að fá höggið í sig en Hoost er einstaklega góður í því.

Hoost notar oft mjög auðvelda tækni til að setja lágsparkið upp og það er einfaldlega vinstri krókurinn. Hoost fylgir vinstri króknum eftir með hægri lágsparki. Við bætist stundum stunga og bein hægri sem brýtur upp hvað andstæðingar Hoost búast við. Algeng flétta hjá Hoost var t.d. stunga, bein hægri, vinstri krókur og enda svo á lágsparki. Hér að neðan má sjá gott dæmi um nokkur fullkomin lágspörk frá meistaranum sjálfum, Ernesto Hoost.

Það er þó ekki allur sannleikurinn en aðal ástæðan fyrir því að lágspark Hoost er svo aflmikið er tímasetningin. Hann sparkar að öllu afli með að því að færa þyngdina yfir og kastar hægri handleggnum niður með mjöðmum fyrir meira afl. Venjan í sparkboxi er að verja höfuðið með vinstri hendinni en Hoost notar hana oftast til þess að ná betra jafnvægi. Þó er hann alltaf varkár með hana og fleygir henni ekki of langt frá höfðinu.

Hér eru tvö frábær útskýringamyndbönd á þyngdarfærslunni og hvernig hann setur upp lágspörkin.

Brynjar Hafsteinsson
Brynjar Hafsteinsson
-Greinarhöfundur -Félagsfræðinemi HÍ -MMA-spekingur frá 1999 -Sparkboxari
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular