Einn af þjálfurum Dustin Poirier, Thiago Alves, var handviss um að kálfaspörkin myndu virka vel gegn Conor McGregor.
Dustin Poirier kláraði Conor McGregor með tæknilegu rothöggi í 2. lotu á UFC 257 um síðustu helgi. Thiago Alves var í horninu hjá Dustin en hann barðist lengi vel í UFC og starfar nú sem þjálfari hjá American Top Team þar sem Dustin Poirier æfir.
Kálfaspörkin frá Poirier voru eitt af bestu vopnum bardagans og gekk leikáætlun Poirier fullkomlega upp.
„Conor berst úr hálfgerðri karate og tækvondó stöðu. Hann er með frábært box en fótastaðan hans er víð og hnéð snýr örlítið inn. Mike Brown, Dyah Davis og ég tókum eftir því að kálfaspörkin myndu virka vel í þessum bardaga,“ sagði Thiago við MMA Fighting.
Kálfinn á Conor byrjaði strax að bólgna upp og var snemma farinn að haltra um í bardaganum. „Það er hræðilegt að fá spark í kálfann. Þetta lamar þig og sársaukinn fer ekki fyrr en eftir 1-2 vikur. Þú ert ekki með neinn kraft ef þú getur ekki notað lappirnar og við vissum að það væri góð leikáætlun gegn Conor McGregor.“