Yfirþjálfari Rondu Rousey, Edmond Tarverdyan, hefur lýst sig gjaldþrota. Að hans sögn er hann með engar tekjur, á ekkert í Glendale Fighting Club og skuldar yfir 700.000 dollara.
Edmond Tarverdyan hefur þjálfað Rondu Rousey frá því hún tók sín fyrstu skref í MMA. Ronda Rousey er ein stærsta stjarnan í MMA í dag og er ein hæst launaðasta íþróttakona heims í dag.
Samkvæmt Bloody Elbow lýsti Tarverdyan sig gjaldþrota í júlí á þessu ári. Í gjalþrotaskilunum kemur fram að Tarverdyan sé atvinnulaus með engar tekjur. Það kemur á óvart þar sem hann er yfirþjálfari eins hæst launaðasta íþróttamann MMA og var talinn vera eigandi Glendale Fighting Club (GFC) þar sem Rousey æfir.
Í gjalþrotaskilum þarf að greina frá tekjum síðustu sex mánuði, eða frá 1. janúar til 30. júní í tilviki Tarverdyan. Á því tímabili barðist Ronda Rousey við Cat Zingano og er erfitt að ímynda sér að Tarverdyan hafi þjálfað Rousey ókeypis af einskærri góðmennsku.
Fram kemur að Tarverdyan skuldi yfir 700.000 dollara. Þar á meðal skuldar hann Bank of America 136.925 dollara, Barclays Bank Delaware 117.714 dollara, Citibank 194.252, Citibank Nk 8.836 dollara, Citibank South Dakota 163.693 dollara, Discover 6.411 dollara, Discover Bank 8.496 dollara, Glendale Memorial Hospital 11.953 dollara, HSBC Bank 7.294 dollara, HSBC Bank Nevada N.A. 22.000 dollara og loks skuldar hann Luis Samkow 9.817 dollara.
Eins skrítið og það er að yfirþjálfari stærstu stjörnu UFC sé tekjulaus og skuldi 700.000 dollara þá verður málið enn skrítnara þegar kemur í ljós að Tarverdyan man ekki hvenær hann skilaði síðast inn skattaskýrslu.
Rannsókn málsins sýnir að Tarverdyan hafi komið undan sér eignum sínum áður en hann lýsti sig gjaldþrota. Meðal eigna hans voru Glendale Fighting Club (GFC) þar sem Rousey æfir. Tarverdyan eflaust komið eignum sínum á ættingja eða maka áður en hann lýsti sig gjaldþrota. Rannsóknarnefndin er þó meðvituð um hlutverk Tarverdyan í GFC og þykir það grunsamlegt að klúbburinn skuli ekki birtast í eignum hans.
Þá segir einnig að Tarverdyan hafi haft engar tekjur frá 2013 til 2014 en á þeim árum barðist Rousey fjóra bardaga í UFC. Tarverdyan var í horninu hennar og undirbjó hana fyrir alla þessa bardaga.
Þann 16. nóvember, tveimur dögum eftir að Rousey berst í Ástralíu, þarf Tarverdyan að mæta á fund lánardrottna sinna þar sem hann verður eiðsvarinn. Þar þarf hann að svara öllum spurningum lánardrottna sinna og fjárvörslumannanna sem annast rannsóknina.
Í síðasta mánuði gagnrýndi mamma Rousey þjálfarann hennar og sagði hann vera slæma manneskju. Tarverdyan hefur eflaust eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu og á jafnvel fleira eftir að koma upp á yfirborðið.
Ronda Rousey mætir Holly Holm á UFC 193 þann 14. nóvember.