Monday, June 17, 2024
spot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2015

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2015

Það bíða allir eftir desember en það verður nóg um að vera í millitíðinni. Nóvember er drekkhlaðinn af bardögum svo allir ættu að geta fundið eitthvað til að hlakka til.

UFC verður með fjögur bardagakvöld, WSOF verður með átta manna útsláttarmót í léttvigt, Bellator verður með kvöld með tveimur titilbardögum og sjálfur Mirko ‘Cro Cop’ berst í UFC (en komst þó ekki á listann). Já og svo er víst Ronda Rousey að berjast.

kim masvidal

10. UFC Fight Night 79, 28 nóvember – Dong Hyun Kim gegn Jorge Masvidal (veltivigt)

Cro Cop komst víst ekki á listann. Þess í stað í 10. sæti fáum við mjög áhugaverðan bardaga á milli tveggja refa. Báðir þessir kappar eru mjög færir á gólfinu þó þeir noti þá hæfileika ekki alltaf. Dong Hyun Kim er sérstaklega gjarn á að henda allri tækni út um gluggann og reyna einhverja brjálaða þyrluárás en gæti líka tekið upp á því að nota kæfandi glímustíl sinn til að brjóta Masvidal.

Spá: Masvidal er snjallari bardagamaður, hann mun nýta sér mistök Kim og sigra a.m.k. tvær af þremur lotum.

belrort henderson

9. UFC Fight Night 77, 7. nóvember – Vitor Belfort gegn Dan Henderson (millivigt)

Gamalmennin Vitor Belfort og Dan Henderson mætast í þriðja sinn á níu ára tímabili. Báðir hafa unnið einn bardaga á móti hinum svo það er tilvalið að úrskurða hvor sé betri bardagamaður. Báðir eru orðnir skuggar af sjálfum sér. Henderson hefur virkar stífur og stirður undanfarið og Belfort leit út eins og sprungin blaðra á móti Chris Weidman í maí. Þetta verður talsvert jafnari bardagi en 2013 bardaginn. Spurningin er, hvor er sprækari á þessum tímapunkti?

Spá:  Tek sénsins, Henderson sigrar á rothöggi í fyrstu lotu.

hunt silva

8. UFC 193, 15. nóvember – Mark Hunt gegn Antônio ‘Bigfoot’ Silva (þungavigt)

Eftir blóðugt stríð fyrir tveimur árum sem endaði með jafntefli hlaut að koma að öðrum bardaga á milli Mark Hunt og Bigfoot Silva. Fyrsti bardaginn var fimm lotur en hér fáum við aðeins þrjár, sem er kannski ágætt.

Spá: Að þessu sinni fer þetta ekki alla leið. Hunt rotar Silva í annarri lotu.

lamas sanchez

7. TUF Latin America 2 Finale, 21. nóvember – Ricardo Lamas gegn Diego Sanchez (fjaðurvigt)

Eftir erfitt tap gegn Chad Mendes fær Ricardo Lamas auðveldari bráð til að byggja sig upp að nýju. Diego Sanchez er yfirleitt skemmtilegur að horfa á en þrátt fyrir að vera aðeins 33 ára virðist hann vera kominn vel yfir sitt besta.

Spá: Ricardo Lamas sigrar sannfærandi í líflegum bardaga. TKO, önnur lota.

bellator

6. Bellator 145, 6. nóvember – Will Brooks gegn Marcin Held (léttvigt)

Bellator 145 lofar ansi góðu með tveimur titilbardögum í fjaðurvigt og léttvigt. Áhugaverðasti bardagi kvöldsins er titilvörn Will Brooks gegn pólska jiu-jitsu snillingnum Marcin Held sem fékk svarta beltið 21 árs gamall. Held hefur sigrað 10 af 11 bardögum sínum í Bellator, þar með talið gegn Patricky ‘Pitbull’ Freire.

Spá: Will Brooks sigrar á stigum.

formiga cejudo

5. TUF Latin America 2 Finale, 21. nóvember – Jussier Formiga gegn Henry Cejudo (fluguvigt)

Allir virðast vera búnir að ákveða að Henry Cejudo muni berjast við Demetrious Johnson mjög fljótlega. Bara eitt vandamál, hann verður fyrst að sigra Jussier Formiga sem er ofar en hann á styrkleikalista UFC. Formiga er reyndari í MMA en Cejudo, með svart belti í júdó og jiu-jitsu og hefur unnið þrjá bardaga í röð. Cejudo er 28 ára glímuguð og ósigraður í MMA. Þetta verður spennandi.

Spá: Cejudo rétt svo nær að kreista út sigur á stigum.

henderson alves

4. UFC Fight Night 79, 28 nóvember – Benson Henderson gegn Thiago Alves (veltivigt)

Þessi verður grjótharður. Fyrrverandi WEC og UFC meistarinn Benson Henderson mætir Thiago Alves í veltivigt. Henderson hefur oftast barist í léttvigt en sigraði Brandon Thatch í hans síðasta bardaga sem fór fram í veltivigt. Henderson er með bakgrunn í Taekwondo en Alves er mikið fyrir Muay Thai svo þessi lofar mjög góðu. Báðir eru reynsluboltar.

Spá: Henderson hefur lag á að finna leið til sigurs. Hann sigrar á stigum.

glover_cummins

3. UFC Fight Night 77, 7. nóvember – Glover Teixeira gegn Patrick Cummins (léttþungavigt)

Þessi bardagi mun segja okkur hversu góður Patrick Cummins er orðinn. Glover Teixiera er þekktari stærð en það getur verið auðvelt að gleyma hversu öflugur hann er.

Spá: Ég vanmat Glover Teixeira síðast og mun ekki endurtaka það. Teixera verst fellum, nær inn þungum höggum og klárar bardagann með uppgjafartaki.

UFC193_Jedrzejczyk_vs_Letourneau-620x379

2. UFC 193, 15. nóvember – Joanna Jędrzejczyk gegn Valérie Létourneau (strávigt kvenna)

Hver elskar ekki Joanna Jędrzejczyk? Hún er rafmagnaður persónuleiki, alltaf brosandi en breytist svo í tortímanda í búrinu. Bardagi hennar gegn Jessica Penne var blóðugur ballett í hæsta gæðaflokki. Allir vilja sjá hana gegn Claudia Gadelha en hún meiddist svo Valérie Létourneau er klár í slaginn. Létourneau er lítið þekkt en eina tap hennar í síðustu átta bardögum var einmitt á móti Claudia Gadelha.

Spá: Létourneau er tæknilega góð en hún mun ekki eiga séns í Joanna Champion. JJ sigrar í þriðju lotu, TKO.

015_Ronda_Rousey_and_Holly_Holm.0.0

1. UFC 193, 15. nóvember – Ronda Rousey gegn Holly Holm (bantamvigt kvenna)

Það trúir því enginn að Holly Holm eigi raunhæfa möguleika á móti Rondu Rousey. Samt sem áður er alltaf heillandi að horfa á hana berjast. Þessi bardagi er skemmtilegur af því að þetta er ferskur andstæðingur sem er ákveðið spurningarmerki. Við vitum að Holly Holm er góð standandi en hvað gerist ef bardaginn fer í gólfið? Ég held við vitum það.

Spá: Ronda Rousey sigrar í fyrstu lotu, hvað annað? Segjum „armbar“.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular