Þrír Íslendingar munu berjast í MMA á morgun í Liverpool. Þeir Bjarki Ómarsson, Egill Øydvin Hjördísarson og Hrólfur Ólafsson náðu allir vigt í dag og er því fátt sem kemur í veg fyrir bardaga þeirra á morgun.
Þremenningarnir eru allir í Keppnisliði Mjölnis og keppa á Shinobi War 7 bardagakvöldinu á morgun. Bardagakvöldið hefst kl 16 að íslenskum tíma á morgun og mun Bjarki berjast fyrstur af Íslendingunum. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær okkar menn berjast en bardagi Bjarka er sá fimmti í röðinni og mun Egill svo fylgja beint í kjölfarið. Hrólfur berst nokkrum klukkustundum síðar.
Mjölnir ætlar að reyna að senda bardagana beint út í gegnum Facebook síðu þeirra.
Eins og áður segir náðu strákarnir tilsettri þyngd og eru tilbúnir fyrir morgundaginn. „Cuttið gekk mjög vel, alveg óvenju vel. Stemningin er mjög góð og eru allir helvíti hressir eftir að hafa fengið að borða eftir niðurskurðinn,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis og einn af þjálfurum liðsins.
Jón Viðar er með í för og en myndast hefur sú hefð að fara í bíó kvöldið fyrir bardagana. „Við ætlum að éta yfir okkur á brasilísku steikhúsi í kvöld og skella okkur svo á Captain America: Civil War. Ætlum að horfa á smá stríð til að undirbúa okkur undir stríð morgundagsins,“ segir Jón í léttum tóni.
Áhugasamir geta séð undirbúninginn og á bakvið tjöldin í kringum bardagana á Snapchat-aðgangi Mjölnis; Mjolnirmma.