0

Tony Ferguson: Conor þarf að vera tuskaður til

Tony Ferguson er staðráðinn í að fá bardaga gegn Conor McGregor. Nýkrýndi bráðabirgðarmeistarinn vill sjá beltin verða sameinuð.

Tony Ferguson sigraði Kevin Lee á UFC 216 um helgina. Þar með tryggði hann sér bráðabirgðartitilinn í léttvigtinni. Conor McGregor er ríkjandi léttvigtarmeistari en hann hefur verið fjarri góðu gamni á þessu ári. Búist er við að hann snúi aftur fljótlega og sagði Dana White, forseti UFC, að bardagi Ferguson og Conor sé rétti bardaginn núna.

„Ef Dana segir það munum við rukka hann um það. UFC vill ekki láta kalla sig lygara þannig að þetta verður að gerast,“ sagði Tony Ferguson í The MMA Hour í vikunni.

Conor hefur ekkert barist í MMA síðan hann vann titilinn í nóvember í fyrra. Margir krefjast þess að Conor verji titilinn sinn og ætti Tony Ferguson að fá tækifæri á að sameina beltin.

„Conor horfir á bardagana. Hann hefur ekki sagt neitt. Hann sagði ekkert á Twitter. Drengurinn er hræddur, hann er að flýja. Eins og ég sagði við hann, gefðu frá þér beltið og gaktu rólega burt, þá mun enginn skaðast. Það er það eina sem þú þarft að gera. Þetta verður erfiður bardagi fyrir hann og ég held hann hafi ekki nægilega marga hornamenn í heiminum til að hjálpa sér í þetta sinn.“

Eftir sigur Ferguson á laugardaginn lét hann Conor heyra það og skoraði á hann að mæta sér í búrinu. „Ég hef barist við þá alla og Conor er ekkert öðruvísi en hver annar maður. Hann kallar sjálfan sig guð en honum blæðir. Það eru engin illindi hérna en áskorunin mín var einlæg.“

„Mig langar rosalega að berjast við hann þar sem ég trúi því að ég sé betri en hann. Ég ábyrgist það að ég yrði betri meistari og myndi verja beltið. Hann hefur aldrei varið beltið. Aldrei!“

Þeir Conor og Tony Ferguson eru hjá sömu umboðsskrifstofu, Paradigm Sports Management. Það gæti því orðið snúin staða sem kæmi upp ef Conor kýs að mæta frekar Nate Diaz en Tony Ferguson. Nate Diaz hefur ekkert barist síðan hann mætti Conor á UFC 202 í fyrra. Talið er að UFC muni bóka þriðja bardagann á milli þeirra í stað þess að láta Conor mæta Ferguson.

„Conor þarf að vera tuskaður til og við þurfum að sameina beltin. Annars þarf hann að láta beltið af hendi og láta ekki sjá sig aftur. Ef hann fer upp í 170 pund, 185 pund eða niður í 145 pund mun ég elta hann. Ég mun ásækja þig í draumum og elta þig! Einn daginn, þó við höfum sama umboðsmann, muntu sjá mig aftur. Og þú munt finna fyrir sársauka. Hann hefur miklu að tapa. Þegar uppi er staðið munum við eiga frábæran bardaga, þetta verður flugeldasýning.“

Dana White gat ekki sagt með vissu hvenær Conor McGregor kæmi aftur en talaði um að það gæti gerst í lok árs. Conor McGregor sagðist vera til í að berjast á UFC 219 þann 30. desember en aðeins ef hann þarf ekki að sinna neinum fjölmiðlaskyldum. Líklegra er að bardaginn færi fram í byrjun næsta árs en Ferguson verður samt tilbúinn hvenær sem kallið kemur.

„Ef hann vill berjast á þessu ári er ég tilbúinn. Ég gæti byrjað að æfa í næstu viku. Læknarnir vita að ég er ekki meiddur. Ég tók nokkur högg frá Lee en stundum þarftu að taka eitt högg til að gefa tvö. Ég vil ekki vera kýldur gegn Conor. Það verða allt öðruvísi æfingabúðir og hann verður ekki tilbúinn.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.