Saturday, April 20, 2024
HomeErlentTony Ferguson mætir Donald Cerrone í júní

Tony Ferguson mætir Donald Cerrone í júní

Tony Ferguson er tilbúinn að snúa aftur í búrið og er strax kominn með bardaga. Ferguson er sagður mæta Donald Cerrone á UFC 238 strax í júní.

Þetta er áhugaverður bardagi fyrir margar sakir en hefur þó ekki verið endanlega staðfestur af UFC. ESPN segir að bardaginn sé nánast staðfestur og er ESPN ekki að leggja í vana sinn að dreifa falsfréttum.

Tony Ferguson hefur ekki barist síðan hann sigraði Anthony Pettis á UFC 229 í október. Síðan þá hefur hann verið að glíma við erfiðleika utan búrsins.

Í mars óskaði eiginkona hans, Christina Ferguson, eftir nálgunarbanni á Tony vegna ógnandi hegðunar hans. Christina greindi frá alvarlegum andlegum veikindum Tony þar sem hann var með ranghugmyndir og ofsóknarkennd. Tony hefur síðan þá leitað sér hjálpar og hætti Christina við nálgunarbannið.

Tony Ferguson átti fund með Dana White, forseta UFC, fyrr í vikunni og virðist nú vera kominn með næsta bardaga. Bardaginn verður gegn Donald Cerrone á UFC 238 þann 8. júní. Cerrone var að berjast um síðustu helgi þegar hann fór fimm lotur með Al Iaquinta og stóð uppi sem sigurvegari. Þetta er því enn eitt dæmið um að Cerrone er til í bardaga hvar sem er og hvenær sem er.

Ferguson hefur unnið 11 bardaga í röð og Cerrone unnið þrjá í röð síðan hann fór niður í léttvigt. Tveir titilbardagar eru þegar á dagskrá á kvöldinu en þeir Marlon Moraes og Henry Cejudo mætast um bantamvigtartitilinn og þær Valentina Shevchenko og Jessica Eye berjast um fluguvigtartitil kvenna.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular