spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentTrúaður Rory MacDonald á erfitt með að meiða andstæðinga sína

Trúaður Rory MacDonald á erfitt með að meiða andstæðinga sína

Bardagi Rory MacDonald og Jon Fitch endaði með jafntefli í gær á Bellator 220. Rory MacDonald sagði eftir bardagann að hann væri ekki sami bardagamaður og hann var.

Bardaginn var hluti af veltivigtarmóti Bellator en veltivigtartitill MacDonald var þrátt fyrir það undir. Bardaginn endaði með meirihluta jafntefli eftir fimm lotur en tveir dómarar skoruðu bardagann 47-47 á meðan sá þriðji skoraði bardagann 48-46 Fitch í vil.

Fitch notaði glímuna sína og stjórnaði MacDonald með fellum. Fitch vann lotur þrjú og fimm mjög öruggt á meðan MacDonald tók lotu tvö en fimmta lotan var skorið 10-8 Fitch í vil. Hinar tvær loturnar voru jafnari og var erfiðara að skora þær en tveir dómaranna gáfu MacDonald 1. og 4. lotu. Bardaginn endaði því með meirihluta jafntefli og heldur MacDonald beltinu og fer áfram.

Scott Coker, forseti Bellator, sagði að þar sem þetta var titilbardaginn og meistarinn tapaði ekki mun MacDonald fara áfram í veltivigtarmótinu. MacDonald sagði síðan mjög áhugaverða hluti í viðtalinu í búrinu eftir bardagann þar sem hann virtist efast um að hann gæti ennþá barist.

„Það er erfitt að taka í gikkinn núna. Ég hef ekki þetta drápseðli innra með mér lengur. Það er erfitt að útskýra þetta en ég hika meira núna. Ég veit ekki hvað ég á að segja, þetta var ekki mín besta frammistaða,“ sagði MacDonald.

„Guð hefur breytt andanum mínum, breytt hjartanu mínu og það tekur ákveðinn anda að fara í búrið og leggja þjáningar á annan mann. Ég veit ekki hvort ég hafi sama drifkraft til að meiða menn lengur. Ég veit ekki hvað það er en það er ruglandi. Ég veit að Guð hefur eitthvað planað fyrir mig, hann var að tala við mig hér í kvöld, þetta er öðruvísi tilfinning.“

MacDonald á að mæta Neiman Gracie þann 14. júní í Madison Square Garden. Á blaðamannafundinum eftir bardagann sagðist hann ekki vera í nokkrum vafa um að hann yrði tilbúinn fyrir Gracie í júní og mun halda áfram að berjast. Í hinni undanúrslitaviðureigninni í mótinu mætast þeir Michael Page og Douglas Lima.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular