TUF Finale fór fram í kvöld þar sem Stephen Thompson og Jake Ellberger mættust í aðalbardaga kvöldsins. Kamaru Usman og Hayder Hassan börðust í úrslitabardaga 22. seríu TUF.
Bardagi Stephen Thompson og Jake Ellberger var frábær skemmtun þó stuttur hafi verið. Ellenberger kýldi Thompson niður snemma í lotunni en Thompson virtist fljótur að jafna sig. Thompson stóð fljótt upp og reyndi að taka Ellenberger niður á meðan hann jafnaði sig.
Skömmu síðar náði karate-maðurinn Thompson frábæru snúnings hælsparki sem felldi Ellenberger. Thompson náði svo öðru frábæru snúnings hælsparki sem gerði út af við Ellenberger. Thompson sigraði með rothöggi eftir 4:29 í fyrstu lotu.
Næstsíðasti bardagi kvöldsins var á milli Kamaru Usman og Hayder Hassan. Í 22. seríu TUF áttust við bardagaklúbbarnir tveir, American Top Team og Blackzilians. Hvort lið valdi einn aðila til að berjast um TUF bikarinn svo kallaða milli liðanna. Blackzilians valdi Kamaru Usman og American Top Team Hayder Hassan.
Usman hafði mikla yfirburði allan tíman og stjórnaði fyrstu lotunni með fellum. Strax í upphafi 2. lotu virtist Hassan lenda þungu höggi á Usman sem vankaðist en skaut umsvifalaust í fellu. Á blaðamannafundinum sagðist Usman ekki vita að hann hefði verið vankaður (eins undarlega og það kann að hljóma).
Í gólfinu náði Usman „mount“ og læsti „arm-triangle“ hengingu. Hassan neyddist til að gefast upp og sigraði Hassan með hengingu eftir 1:19 í 2. lotu. Blackzilians sigruðu seríuna og fengu 300.000 dollara (og bikar) að launum.
Jorge Masvidal sigraði Cezar Ferreira með rothöggi eftir 4:22 í fyrstu lotu. Þetta var fyrsti bardagi beggja í veltivigtinni en Masvidal kom úr léttvigt og Ferreira úr millivigt.
Michelle Waterson, The Karate hottie, hafði mikla yfirburði yfir Angela Magana. Þetta var fyrsti bardagi Waterson í UFC og táraðist hún eftir sigurinn. Magana sýndi aftur að hún er ekki góður bardagamaður og á ekkert erindi við UFC sem og eineltispersónuleikinn hennar.
Josh Samman og Maximo Blanco kláruðu sína bardaga en annars var fátt um fína drætti á bardagakvöldinu fyrir utan ofangreinda bardaga.