Fimm keppendur frá Reykjavík MMA kepptu í Skotlandi fyrr í kvöld. Bardagarnir fóru fram á Evolution of Combat 4.
Fyrstur af strákunum var Álvaro Heredero Lopez en hann mætti Thomas Callaghan í léttvigt. Þetta var fyrsti bardagi Álvaro en hann tapaði eftir einróma dómaraákvörðun.
Næstur var Haraldur Arnarson en hann mætti Sean Stroud í 176 pund hentivigt. Bardaginn byrjaði fjörlega og fóru þeir fljótt að skiptast á höggum. Þar hafði Haraldur betur og var því ekki lengi að klára sinn fyrsta bardaga en dómarinn stöðvaði bardagann eftir aðeins 32 sekúndur.
Sá þriðji til að berjast var Gunnar Már Ólafsson en þetta var einnig hans fyrsti MMA bardagi. Gunnar mætti Jeff Akham í fjaðurvigt og beið lægri hlut. Akham varðist fellutilraunum Gunnars og kláraði bardagann með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.
Næstur var Aron Kevinsson en hann mætti Chris Gregg í léttvigt. Upphaflega átti Aron að mæta Bradley Scott en Scott meiddist og kom Gregg inn því með skömmum fyrirvara. Aron kláraði Gregg með armlás af botninum eftir 1:15 í 1. lotu. Aron er núna 3-1 sem áhugamaður í MMA.
Síðastur af keppendunum var hinn 18 ára Jón Ingi en hann mætti Sean Clancy Jr. Jón Ingi lenti undir í 2. lotu og var fastur undir í „mount“ þar sem Clancy lét höggin dynja. Að lokum hafði dómarinn séð nóg og stöðvaði bardagann. Jón Ingi er því 1-1 sem áhugamaður og kemur til baka reynslunni ríkari.
Niðurstaðan því tveir sigrar og þrjú töp í Skotlandi í kvöld.