spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentTvö ár síðan Conor McGregor sigraði Nate Diaz

Tvö ár síðan Conor McGregor sigraði Nate Diaz

Í dag þann 20. ágúst eru akkúrat tvö ár liðin síðan Conor McGregor sigraði Nate Diaz í stórkostlegum bardaga. Þrátt fyrir að ekkert belti hafi verið í húfi er óhætt að segja að um sé að ræða einn magnaðasta bardaga í sögu UFC.

Bardaginn var endurat frá því í mars sama ár en þá kom Nate Diaz gríðarlega á óvart og hengdi Conor í 2. lotu á UFC 196. Conor átti upphaflega að mæta þáverandi léttvigtarmeistara, Rafael dos Anjos, en þegar hann meiddist 11 dögum fyrir bardagann kom Nate Diaz inn.

Eftir tapið vildi Conor ekki sjá neitt annað en annan bardaga gegn Nate. Upphaflega áttu þeir að mætast á UFC 200 í aðalbardaga kvöldsins en á meðan Conor var staddur á Íslandi lýsti hann því yfir að hann væri hættur. Conor var ósáttur við hve miklu kynningarstarfi hann átti að sinna fyrir UFC 200 og kom tilkynningin eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

UFC reyndi að fá Conor til að koma til Las Vegas og ræða málin en hann vildi frekar vera hér á Íslandi og æfa. Samkvæmt slúðurmiðlum var UFC tilbúið að setja upp nýjan Mjölni í Las Vegas bara svo Conor gæti komið og æft þar. Conor haggaðist ekki og var bardaginn blásinn af. UFC bauð Nate að berjast á UFC 200 gegn nýjum andstæðingi en hann hafði engan áhuga á að berjast við neinn annan en Conor. Conor var þó ekki lengi hættur og var bardaginn bókaður aftur á UFC 202 þann 20. ágúst 2016.

Frægur blaðamannafundur

Conor hafði fremur hægt um sig í aðdraganda bardagans og var ekki með sinn vanalega kjaft. Þann 17. ágúst eða þremur dögum fyrir bardagann hélt UFC blaðamannafund til að kynna bardagann þar sem allt varð gjörsamlega vitlaust. Conor mætti alltof seint en þegar hann mætti loks yfirgaf Nate Diaz blaðamannafundinn. Þeir skiptust á blótsyrðum og handamerkjum áður en þeir hófu að kasta flöskum í átt að hvor öðrum. Atvikið hlaut mikla athygli og varð spennan enn meiri fyrir bardaganum.

Bardaginn sjálfur

Bardaginn sjálfur var gjörsamlega geggjaður. Conor byrjaði gríðarlega vel og kýldi Nate þrisvar sinnum niður fyrstu tvær loturnar. Í lok 2. lotu vaknaði Nate til lífsins og þjarmaði að Conor upp við búrið. Conor var þarna farinn að þreytast og átti Nate 3. lotu gjörsamlega. Á þessum tímapunkti leit út fyrir að Nate væri að fara að klára þetta á meðan Conor var að fjara út. Í 4. lotu fékk Conor hins vegar skyndilega nýtt líf og tók 4. lotu. Báðir voru svo orðnir örþreyttir í 5. lotu en Nate náði flottu kasti í lok lotunnar og vann þá lotu.

Bardaginn var hnífjafn og æsispennandi en tveir dómarar skoruðu bardagann 48-47 Conor í vil á meðan sá þriðji skoraði hann 47-47. Allir dómararnir voru sammála um að Conor hefði tekið lotur 1, 2 og 4 á meðan Diaz tók lotur 3 og 5. Einn dómarinn taldi hins vegar að Nate hefði unnið 3. lotuna 10-8 og var því bardaginn jafntefli, 47-47, að hans mati. Conor sigraði því eftir klofna dómaraákvörðun.

Síðan þá eru bardagaaðdáendur enn að deila um hvor vann bardagann. Sumir telja að Nate hefði átt að fá 2. lotu dæmda sér í vil og að Nate hefði klárlega átt að fá lotu 3 dæmda 10-8 af öllum dómurum. Flestir fjölmiðlamenn voru þó á því að Conor hefði unnið 48-47.

Eftirmálar

Bardagakvöldið var einfaldlega frábær skemmtun. Allir fimm bardagarnir á aðalhluta bardagakvöldsins voru frábærir og fengum við meðal annars að sjá 11 sekúndna rothögg Anthony Johnson og stórkostlega fléttu Donald Cerrone sem rotaði Rick Story. Þá fengum við okkar fyrstu kynni af Mike Perry en hann rotaði Hyun Gyu Lim í 1. lotu.

Nate Diaz hefur ekki barist síðan þá og eru því akkúrat tvö ár í dag síðan hann steig síðast í búrið. Hann er þó loksins kominn með bardaga og mætir Dustin Poirier í Madison Square Garden þann 3. nóvember. Nate hefur þó verið að láta ýmislegt undarlegt hafa eftir sér síðan bardaginn var staðfestur og ríkir smá óvissa um hvort bardaginn muni yfir höfuð fara fram. Conor og Nate vilja klára trílogíuna þeirra á milli og er eiginlega bara spurning hvenær sá þriðji mun fara fram.

Þeir Conor og Nate voru báðir sektaðir af íþróttasambandi Nevada fylkis fyrir flöskukaststríðið en Conor þurfti að greiða 17 milljónir króna og Nate tæpar 6 milljónir króna. Þá var Conor lögsóttur af öryggisverði sem fékk orkudrykkjadós í bakið en lögsóknin var ansi spaugileg.

Bardaginn var umsvifalaust tímalaus klassík og mælum við með að bardagaaðdáendur kíki á bardagann á Fight Pass rás UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular