Wednesday, May 8, 2024
HomeErlentTyron Woodley: Hef engar afsakanir

Tyron Woodley: Hef engar afsakanir

Fyrrum veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley tapaði fyrir Gilbert Burns í nótt í einhliða bardaga. Woodley var svekktur eftir tapið en ætlar ekki að hætta.

Gilbert Burns vann allar loturnar í fimm lotu aðalbardaga þeirra í nótt. Woodley var skrefi á eftir Burns í bardaganum og var Burns einfaldlega betri alls staðar í búrinu.

Woodley tjáði sig um bardagann á Instagram í gær. „Ég er undarlega rólegur miðað við að ég var rassskelldur áðan. Ég veit ekki af hverju ég er svona rólegur. Gilbert gerði það sem hann þurfti en þetta var ekki eins og gegn Usman þegar mér fannst ég ekki vera til staðar,“ sagði Woodley eftir bardagann.

Þetta var fyrsti bardagi Woodley síðan hann tapaði titlinum til Kamaru Usman. Woodley lét hafa eftir sér fyrir helgina að hann hefði ekki verið hann sjálfur í bardaganum gegn Usman og ætlaði að sýna sitt rétta andlit gegn Burns. Burns var mun betri í bardaganum og var Woodley ekki með neinar afsakanir.

„Ég var þarna, ég var til staðar, ég var að svara og ég heyrði hvað þjálfararnir mínir voru að segja. Ég bara gat ekki snert hann. Ég get meðtekið svona tap þar sem ég veit að ég var til staðar andlega og líkamlega.“

Woodley sagðist hafa verið vel undirbúinn fyrir bardagann. Upphaflega átti hann að mæta Leon Edwards í mars í London en bardagakvöldið féll niður vegna kórónaveirufaraldursins.

„Ég hef engar afsakanir. Ég æfði vel, ég var í frábæru formi og mér fannst ég hafa gert allt rétt. Mér leið vel allan tímann og ég vissi að ég væri tilbúinn.“

Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem Woodley tapar tveimur bardögum í röð. Woodley er orðinn 38 ára gamall en er ekkert á því að hætta strax. „Ég náði því miður ekki sigrinum núna. Ég er samt stoltur og mun snúa aftur því ég er meistari.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular