Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeErlentUFC 189: Upphitunarbardagar kvöldsins (Prelims)

UFC 189: Upphitunarbardagar kvöldsins (Prelims)

ufc 189 posterFlestir þeirra sem ætla að horfa á UFC 189 bíða spenntir eftir titilbardögunum tveimur og bardaga Gunnars Nelson. Þó eru margir þrælspennandi bardagar fyrr um kvöldið. Á meðal bardagakappa eru menn eins og Matt Brown, Mike Swick og Íslandsvinurinn Cathal Pendred. 

Í vikunni ætlum við að fara yfir alla bardaga kvöldsins frá toppi til táar. Að sjálfssögðu byrjum við á fyrstu bardögum kvöldsins en á bardagakvöldinu eru sex bardagar áður en aðalhluti bardagakvöldsins hefst.

Fight Pass Prelims (hefjast kl 23 á íslenskum tíma)

Léttvigt – Yosdenis Cedeno (10-4 MMA, 1-2 UFC) gegn Cody Pfiser (11-4-1 MMA, 0-1 UFC)

Í fyrsta bardaga kvöldsins mætast tveir fremur óþekktir kappar í léttvigt. Yosdenis ‘The Pink Panther’ Cedeno hefur keppt tvisvar í UFC og unnið einu sinni. Hann æfir hjá Blackzillians í Flórída. Cody ‘The Pfist’ Pfiser tapaði UFC frumraun sinni í febrúar og mun leitast eftir fyrsta UFC-sigri sínum gegn Cedeno. Sá sem tapar hér gæti misst starfið sitt í UFC.

Spá MMA Frétta: Cedeno sigrar Pfiser með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

Fluguvigt – Neil Seery (15-10 MMA, 2-1 UFC) gegn Louis Smolka (8-1 MMA, 3-1 UFC)

Neil Seery er reynslumikill og hefur keppt í MMA í tíu ár. Hann keppti fyrsta UFC bardaga sinn með viku fyrirvara gegn Brad Pickett snemma á seinasta ári. Á þeim tíma var Seery enn í fullu starfi samhliða því sem hann æfði MMA. Þeir voru því fáir sem gáfu honum nokkurn möguleika gegn Pickett. Hann kom öllum á óvart og veitti Pickett harða keppni en tapaði þó naumlega.

Louis Smolka er aðeins 23 ára en hefur keppt níu sinnum og einungis tapað einum bardaga á ferlinum. Smolka er nokkuð fær í gólfglímunni, brúnbeltingur í júdó og fimm af fyrstu fjórum bardögum hans voru sigrar eftir uppgjafartak. Í seinasta bardaga sínum, gegn Richie Vaculik kláraði Volka bardagann með sérlega vel útfræðu sparki:

Louis Smolka Finishes Richie Vaculik by Stepping Sidekick - UFC Fight Night 55 Uberlandia

Spá MMA Frétta: Smolka tekur Seery niður að vild og sigrar eftir dómaraákvörðun.

Fox Sports 1 Prelims (hefjast á miðnætt)

Bantamvigt – Cody Garbrandt (6-0 MMA, 1-0 UFC) gegn Henry Briones (16-4-1 MMA, 1-0 UFC)

Cody Garbrandt er kappi sem MMA-aðdáendur ættu að fylgjast vel með í framtíðinni. Hann er aðeins 23 ára, ósigraður eftir sex bardaga og hefur sigrað alla bardaga sína með rothöggi eða tæknilegu rothöggi. Garbrandt átti farsælan feril í áhugamannaboxi og æfir með Team Alpha Male. Hann sýndi mjög góð tilþrif í frumraun sinni í UFC gegn Marcus Brimage, sýndi flotta fótavinnu, góða vinkla og tókst að rota Brimage í þriðju lotu. Í viðtalinu eftir bardagann vakti hann athygli á litlum langveikum dreng, Maddux Maple, sem þjáðist af krabbameini. Garbrandt lét strákinn lofa sér að sigrast á veikindum sínum og í staðinn lofaði Garbrandt að komast í UFC. Hér fyrir neðan má sjá meira um þetta áhugaverða samband Garbrandts og stráksins:

Mexíkóinn Henry Briones er einnig mjög spennandi kappi en hann hefur stöðvað andstæðing sinn í 14 af 16 sigrum sínum og hefur ekki tapað síðan 2011. Þessi bardagi verður að öllum líkindum æsispennandi.

Nokkrir hlutar til að hafa í huga:

 • Briones getur verið opinn fyrir höggum standandi
 • Stærsti styrkleiki Garbrandt eru hendurnar hans
 • Briones er talsvert reyndari en Garbrandt með 20 atvinnumannabardaga

Spá MMA Frétta: Cody Garbrandt kemur með enn eitt rothöggið og rotar Briones í 1. lotu.

Veltivigt – Cathal Pendred (17-2 MMA, 4-0 UFC) gegn John Howard (22-11 MMA, 6-6 UFC)

Cathal Pendred frá Írlandi er æfingafélagi Conor McGregor og Gunnars Nelson. Pendred hefur unnið fjóra bardaga í röð í UFC og þykir ansi harður þó flestir væru til í að sjá hann verja sig betur. Pendred hefur lent í klandri í flestum bardögum sínum í UFC en svo virðist sem að harkan og áræðnin fleyti honum ótrúlega langt. Pendred kemur inn í þennan bardaga með þriggja vikna fyrirvara en Howard átti upprunalega að mæta Brandon Thatch sem mun nú mæta Gunnari Nelson.

John Howard hefur tapað þremur bardögum í röð og líklega mun ekkert annað en sigur tryggja áframhaldandi veru hans í UFC. Howard er þau enginn aukvissi og er bæði reynslumikill og hefur sigrað marga sterka andstæðinga (þar á meðal Dennis Hallman og Siyar Bahadurzada).

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

 • Pendred er talsvert faðmlengri en Howard (191cm gegn 180cm)
 • Báðir kappar eru fæddir í Boston, þó Pendred hafi flutt til Írlands þegar hann var fjögurra ára.
 • Howard hefur barist frá árinu 2004 og er með 33 bardaga að baki

Spá MMA Frétta: Pendred sigrar eftir klofna dómaraákvörðun.

Veltivigt – Mike Swick (15-5 MMA, 10-4 UFC) gegn Alex Garcia (12-2 MMA, 2-1 UFC)

Mike ‘Quick’ Swick er nafn sem flestir MMA aðdáendur kannast við. Hann var keppandi í fyrstu þáttaröð The Ultimate Fighter en datt úr keppni eftir tap gegn Stephan Bonnar. Swick er sannkallaður frumkvöðull í íþróttinni en hann keppti sinn fyrsta atvinnumannabardaga árið 1998, þá aðeins 19 ára gamall. Swick er 36 ára í dag og hefur keppt í UFC síðan árið 2005. Bardagar Swick eru ávallt spennandi og þessi verður líklega engin undantekning.

Alex Garcia er 27 ára kappi fæddur í Dóminíkanska Lýðveldinu en æfir nú í Tristar í Kanada. Hann hefur aðeins tapað tvisvar á ferlinum, fyrst gegn Seth Baczynski og svo í síðasta bardaga sínum gegn Neil Magny. Garcia er mjög fjölhæfur bardagakappi og þetta verður viðureign gamla skólans gegn þeim nýja. Garcia er bæði höggþungur en einnig með góðar fellur. Hér má sjá eina góða fellu frá honum gegn Sean Spencer á UFC 171:

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

 • Swick hefur ekkert barist síðan í desember 2012
 • Garcia er tíu cm lægri en Swick og með 13 cm minni faðm
 • Swick hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum og verður að vinna núna

Spá MMA Frétta: Swick er á niðurleið á meðan Garcia er á uppleið. Garcia sigrar eftir dómaraákvörðun.

Matt Brown (19-13 MMA, 12-8 UFC) gegn Tim Means (24-6 MMA, 6-3 UFC)

Matt Brown er án nokkurs vafa einn sá harðasti í íþróttinni í dag. Í lok árs 2011 voru horfurnar ekki sérlega góðar hjá honum. Hann hafði tapað fjórum af síðustu fimm bardögum og var ekkert að yngjast. Hann tók sig þó heldur betur saman í andlitinu og sigraðu næstu sjö bardaga sína. Það skilaði honum bardaga gegn núverandi meistara Robbie Lawler um hver fengi næsta titilbardaga þar sem Brown þurfti að lúta í lægri haldi. Brown er í miklu uppáhaldi hjá mörgum þar sem bardagar hans eru alltaf stórgóð skemmtun.

Tim Means er líkt og Brown þekktur fyrir að vera með mjög skemmtilegan stíl og er, líkt og Brown, þekktur fyrir að vilja standa fyrir framan menn og sveifla þangað til að eitthvað gefur eftir. Means er þekktur fyrir að pressa áfram og brjóta andstæðinga sína niður með fjölda högga. Gott dæmi um þennan stíl má sjá í seinasta bardaga hans í UFC gegn Dhiego Lima:

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

 • Báðir eru stórhættulegir í „clinchinu“
 • Means er með 16 sigra eftir rothögg
 • Brown hefur aldrei tapað eftir rothögg
 • Aðeins 6 af 44 sigrum beggja hafa endað með dómaraákvörðun

Spá MMA Frétta: Matt Brown notar reynsluna og sigrar Means með tæknilegu rothöggi í 3. lotu í rosalegum bardaga.

Það er enginn vafi á að þessir bardagar verður hin besta skemmtun líkt og restin af þessu bardagakvöldi. Nú má 11. júlí bara fara að koma!

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular