UFC 231 fer fram á laugardaginn þar sem aðalbardaginn verður á milli Max Holloway og Brian Ortega. Gríðarleg spenna ríkir fyrir bardagann en þó eru margar spurningar sem enn eru ósvaraðar fyrir bardagann.
Þó bardagi Gunnars Nelson gegn Alex Oliveira á laugardaginn sé sennilega sá bardagi sem Íslendingar eru hvað spenntastir fyrir má ekki gleyma að aðalbardaginn er gríðarlega spennandi.
Max Holloway hefur verið í brasi á þessu ári svo vægt sé til orða tekið. Holloway varð fjaðurvigtarmeistari í fyrra en á enn eftir að berjast í ár. Holloway þurfti að draga sig úr bardaganum gegn Frankie Edgar á UFC 222 í mars en það var í fyrsta sinn sem Holloway hefur þurft að hætta við bardaga á ferlinum. Brian Ortega kom í hans stað og rotaði Frankie Edgar í fyrstu lotu.
Hann stökk svo inn gegn Khabib Nurmagomedov með skömmum fyrirvara í apríl en í niðurskurðinum var honum bannað að skera meira niður og þurfti því aftur að draga sig úr bardaganum. Holloway tók bardagann vissulega með skömmum fyrirvara en sérstakt að hann skyldi ekki hafa náð vigt í flokknum fyrir ofan sig.
Í júlí átti hann svo að mæta Brian Ortega um fjaðurvigtartitilinn. Holloway virkaði þreytulegur og sljór í viðtölum fyrir bardagann en aðeins tveimur dögum fyrir bardagann tilkynnti UFC að Holloway myndi ekki berjast. Holloway var sagður sýna einkenni heilahristings en enn þann dag í dag hefur ekki verið greint frá hvað það var sem gerðist. Holloway hefur þvertekið fyrir að þetta hafi verið niðurskurðurinn og segist ekki hafa verið rotaður í æfingabúðunum fyrir bardagann.
Núna tæpu hálfi ári síðar eiga þeir aftur að mætast. Enn eru spurningar á kreiki um heilsufar Holloway en burtséð frá því er þetta frábær bardagi.
Holloway hefur unnið 12 bardaga í röð og litið einfaldlega frábærlega út í síðustu bardögum. Hann hefur klárað níu af 12 sigrum sínum síðan hann tapaði fyrir Conor McGregor í ágúst 2013. Langar fléttur hans og að því virðist endalaust þol brýtur andstæðingana niður og hefur honum lítið verið ógnað undanfarin ár. Hann hefur ekki verið tekinn niður í fjögur ár og staðist allar fellutilraunir andstæðinga sinna síðustu níu bardaga. Þegar Holloway er upp á sitt besta er hann einfaldlega magnaður en spurningin er hvort hann sé upp á sitt besta.
Brian Ortega er frábær bardagamaður sömuleiðis. Hann hefur unnið alla sjö bardaga sína í UFC (einn var reyndar dæmdur ógildur eftir að Ortega féll á lyfjaprófi) og klárað þá alla. Hann hefur því aldrei farið allar þrjár loturnar í UFC, hvað þá fimm lotur.
Það áhugaverða við Ortega er að hann virðist ekki hafa niðurneglda leikáætlun í bardögum sínum. Ortega er með þrjá sigra í UFC eftir uppgjafartök en samt bara einu sinni náð að klára fellu í UFC. Hann reynir ekki mikið að fara í fellu og virðist ekki hafa á móti því að halda bardaganum standandi. Þar er hann orðinn ansi öflugur eins og sást svo bersýnilega þegar hann varð sá fyrsti til að rota Frankie Edgar.
Hann er líka með fjóra sigra í 3. lotu og hefur nokkrum sinnum náð að vinna bardaga svo seint sem hann var hreinlega að tapa. Ortega hefur þó sýnt að hann er alveg til í að standa og skiptast á höggum eins og hann gerði gegn Renato Moicano og gætum við fengið að sjá þannig bardaga nú um helgina.
Stærstu spurningarnar fyrir þennan bardaga tengjast eiginlega heilsu og niðurskurði Holloway. Niðurskurðurinn er erfiður fyrir Holloway og má efast um hvort hann eigi ennþá heima í fjaðurvigt. En ef Holloway nær vigt og er heilsuhraustur má eiga von á hörku bardaga á laugardaginn.