UFC 231 í Toronto var að ljúka með aðalbardaga Max Holloway og Brian Ortega. Max Holloway sigraði í klikkuðum bardaga með stórkostlegri frammistöðu.
Fyrir bardagann voru spurningar á kreiki hvort Max Holloway væri enn fær um að berjast í fjaðurvigt eftir heilsufars vandamál á þessu ári.
Hann svaraði því heldur betur með magnaðri frammistöðu gegn Brian Ortega! Holloway byrjaði af miklum krafti og var sífellt að finna hökuna á Ortega. Holloway var með magnaðar fléttur, stjórnaði fjarlægðinni og virtist Holloway einfaldlega hafa hrikalega gaman af því að berjast aftur eftir árs fjarveru.
Max Holloway hélt áfram að raða inn höggunum út bardagann en í 3. lotu kom Ortega aðeins til baka og virtist ná að vanka Holloway. Ortega fór í fellu og var ekki langt frá því að ná bakinu á Holloway en meistarinn varðist vel.
Í 4. lotu héldu barsmíðarnar bara áfram og var ótrúlegt hvernig Ortega náði að standa af sér höggin eftir högg frá Holloway. Annað augað á Ortega var orðið ansi marið og eiginlega lokað. Eftir 4. lotuna kíkti læknirinn á Ortega og mat það sem svo að hann gæti ekki séð og var bardaginn því stöðvaður. Frábær frammistaða hjá báðum en Holloway sýndi enn og aftur að hann er besti fjaðurvigtarmaður heims.
Geggjaður endir á mögnuðu kvöldi!