UFC 251 fór fram í Abu Dhabi í nótt. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Kamaru Usman og Jorge Masvidal en hér má sjá úrslit kvöldsins.
Þrír titilbardagar voru á dagskrá í nótt á UFC 251. Veltivigtarmeistarinn Kamaru Usman varði titilinn sinn þegar hann sigraði Jorge Masvidal í aðalbardaga kvöldsins. Masvidal byrjaði vel en Usman tók yfir bardagann þegar á leið. Usman stjórnaði Masvidal upp við búrið og náði að taka Masvidal niður nokkrum sinnum í bardaganum. Bardaginn fór að mestu fram upp við búrið þar sem Masvidal átti fá svör.
Masvidal tók bardagann með um viku fyrirvara en hann fór að þreytast í 3. lotu. Masvidal átti erfitt með að sleppa undan Usman og vann Usman allar loturnar hjá tveimur dómurum og tók 1. lotuna að mati eins dómara. Öruggur sigur hjá Usman.
Alexander Volkanovski sigraði Max Holloway eftir umdeilda dómaraákvörðun. Bardaginn var mjög jafn en Holloway kýldi og sparkaði Volkanovski niður í 1. og 2. lotu. Holloway leit frábærlega út fyrstu 10 mínúturnar en Volkanovski vann 3. og 4. lotuna. Það var því allt undir fyrir 5. lotuna. Svo fór að tveir dómarar skoruðu 5. lotuna Volkanovski í vil og sigraði hann því eftir klofna dómaraákvörðun. Ekki eru allir sammála niðurstöðu dómaranna en Volkanovski er enn fjaðurvigtarmeistari UFC.
Petr Yan er nýr bantamvigtarmeistari UFC eftir sigur á Jose Aldo. Bardaginn var jafn framan af en Yan tók yfir í síðustu lotunum. Aldo fjaraði út og var Yan með mikla yfirburði í 5. lotu. Yan lét höggin dynja á Aldo í 5. lotu í gólfinu þar til dómarinn stöðvaði bardagann eftir 3:24 í síðustu lotunni. Dómarinn Leon Roberts hefði auðveldlega getað stöðvað bardagann fyrr og fékk hann sinn skerf af gagnrýni. Hér að neðan má sjá öll úrslit kvöldsins.
Aðalhluti bardagakvöldsins:
Titilbardagi í veltivigt: Kamaru Usman sigraði Jorge Masvidal eftir dómaraákvörðun (50-45, 50-45, 49-46).
Titilbardagi í fjaðurvigt: Alexander Volkanovski sigraði Max Holloway eftir klofna dómaraákvörðun (47-48, 48-47, 48-47).
Titilbardagi í bantamvigt: Petr Yan sigraði José Aldo með tæknilegu rothöggi eftir 3:24 í 5. lotu.
Strávigt kvenna: Rose Namajunas sigraði Jéssica Andrade efti klofnar dómaraákvörðun (29-28, 28-29, 29-28).
Fluguvigt kvenna: Amanda Ribas sigraði Paige VanZant með uppgjafartaki (armbar) eftir 2:21 í 1. lotu.
Upphitunarbardagar:
Léttþungavigt: Jiří Procházka sigraði Volkan Oezdemir með rothöggi (punch) eftir 49 sekúndur í 2. lotu.
Veltivigt: Muslim Salikhov sigraði Elizeu Zaleski dos Santos eftir klofna dómaraákvörðun.
Fjaðurvigt: Makwan Amirkhani sigraði Danny Henry með uppgjafartaki (anaconda choke) eftir 3:15 í 1. lotu.
Léttvigt: Leonardo Santos sigraði Roman Bogatov eftir dómaraákvörðun.
UFC Fight Pass / ESPN+ upphitunarbardagar:
Þungavigt: Marcin Tybura sigraði Maxim Grishin eftir dómaraákvörðun.
Hentivigt (129 pund): Raulian Paiva sigraði Zhalgas Zhumagulov eftir dómaraákvörðun.
Hentivigt (141 pund): Karol Rosa sigraði Vanessa Melo eftir dómaraákvörðun.
Bantamvigt: Davey Grant sigraði Martin Day með rothöggi (punch) eftir 2:38 í 3. lotu.