Tuesday, September 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 251

Spá MMA Frétta fyrir UFC 251

UFC 251 fer fram í nótt þar sem þrír titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í veltivigt: Kamaru Usman gegn Jorge Masvidal

Pétur Marinó Jónsson: Bardaginn sem allir vildu upphaflega (nema Gilbert Burns auðvitað) en kannski ekki aðstæðurnar sem maður vonaðist eftir. Stærsta spurningamerkið fyrir þennan bardaga er formið hjá Masvidal. Hann segist hafa verið að æfa og Dustin Poirier segir það sama, en samt er maður ekki alveg sannfærður. Það er líka munur á að vera að æfa og æfa fyrir bardaga þar sem þú ert að setja upp leikáætlun fyrir ákveðinn andstæðing.

Þó Masvidal hefði fengið alvöru æfingabúðir yrði alltaf erfitt að fara fimm lotur gegn Usman á þeim hraða sem Usman setur upp. Að mínu mati þarf Masvidal að vera aggressívur frá fyrstu sekúndu og ekki leyfa Usman að stjórna. Það eru fáir sem vaða í Usman en þeir sem hafa gert það hafa valdið honum vandræðum. Það er líka spurning hvort Usman vilji standa meira þar sem það gekk vel síðast gegn Colby en ég held að það sé ekki sniðugt.

Ég sé fyrir mér að Usman geri svipað við Masvidal og hann gerði við Tyron Woodley, Rafael dos Anjos og svo marga. Bara halda honum upp við búrið og grinda yfir fimm lotur. Verður ekki fallegt en það verður þreytandi og erfitt fyrir Masvidal. Maður má samt ekki gleyma því að Masvidal er hættulegur í clinchinu. Hann meiddi Nate Diaz þar nokkrum sinnum og rotaði Cezar Ferreira með olnboga í clinchinu. Aðal málið er að Masvidal má ekki vera latur og láta Usman stjórna sér. Ég held að þetta verði hörku bardagi þar sem báðir fá sín augnablik. Usman tekur þetta á endanum á stigum.

Óskar Örn Árnason: Ég held að Masvidal eigi lítin séns í Usman með fullt camp. Með stuttum fyrirvara þarf hann kraftaverk. Ég held að Usman wrestli hann í drasl og taki þetta 50-45.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta er frábær bardagi. Masvidal er svona sjaldgæf týpa af bardagamanni sem bakkar upp allt sem hann segir. Stígur hér inn gegn Usman með sex daga fyrirvara og hvernig sem þessi bardagi fer þá fær hann risa rokkstig frá mér fyrir að vera til í að mæta hverjum sem er hvenær sem er. Æfingafélagi Masvidal, Dustin Poirier, segir að Masvidal hafi verið að æfa á fullu undanfarnar 6-7 vikur fyrir bardaga gegn Usman í þeirri von að hann myndi fá séns með skömmum fyrirvara. Masvidal er svaka wildcard og eins og við sáum gegn Ben Askren er hann ekkert lamb að leika sér við, jafnvel fyrir elítu glímukappa. Að því sögðu held ég að Usman sé mjög vont matchup fyrir Masvidal. Ég held að Usman sé of sterkur, pressi Masvidal upp við búrið og nái honum í gólfið. Usman með TKO í 4. lotu í frábærum bardaga.

Halldór Halldórsson: Ég var byrjaður að skrifa um að Usman myndi glíma Masvidal svo illa að hann myndi ekki sjá dagsbirtuna í fimm langar lotur……en þar sem ég er mikill rómantíkus þá get ég ekki setið á mér og gert annað en að spá Masvidal sigri sem mun setja sportið á hliðina. Í þriðju lotu mun Masvidal lenda þriggja högga fléttu sem setur Usman á afturendann og slekkur síðan ljósin á honum í gólfinu. Masvidal TKO í þriðju lotu.

Kamaru Usman: Pétur, Óskar, Guttormur
Jorge Masvidal: Halldór

Titilbardagi í fjaðurvigt: Alexander Volkanovski gegn Max Holloway

Pétur Marinó Jónsson: Ég held að þetta verði bara mjög svipað og síðast. Síðast var Volkanovski alltaf að trufla taktinn hjá Holloway með faints, lágspörkum og fleiri höggum. Holloway verður betri þegar líður á bardagann en hann komst aldrei í þennan takt sem hann er þekktur fyrir síðast þar sem Volkanovski bara leyfði það ekki. Núna er spurning hvað Holloway ætlar að gera nýtt. Holloway hefur ekki beint verið að æfa við kjör aðstæður en hann hefur ekkert hitt þjálfara sína og bara verið að æfa einn heima hjá sér í gegnum fjarfundabúnað. Max hefur ekkert sparrað og ég sé hann ekki ná að gera neitt mikið öðruvísi í þetta sinn. Þetta verður mjög svipað og síðast og vinnur Volkanovski eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta var ekki mjög jafnt með mínum augum síðast. Ég held að bilið verði enn stærra núna, Volkanovski er með númer Holloway og tekur þetta sannfærandi á stigum

Guttormur Árni Ársælsson: Endurat af frábærum bardaga þar sem Volkanovski hrifsaði titilinn. Ég spáði Volkanovski sigri í þeim bardaga en það kom mér samt algjörlega á óvart hvernig hann fór að því. Ég hélt að við myndum sjá hann pressa Holloway upp að búrinu og reyna að ná honum í jörðina. Í staðinn mætti hann með frábært gameplan og counteraði stungurnar frá Holloway með föstum lágspörkum sem sló Holloway alveg út af laginu. Að mínu mati mun þessi seinni bardagi ráðast af því hvorum tekst betur að læra af seinasta bardaga. Ég gæti trúað að við sjáum eitthvað af glímunni frá Volkanovski í þetta sinn og ætla að spá honum sigri í spennandi fimm lotu bardaga.

Halldór Halldórsson: Leikáætlun Holloway breytist lítið milli bardaga og er uppskriftin einföld; pressa og volume. Volkonovski sýndi okkur í síðasta bardaga að hann er með fótavinnu og gangárásir til að kæfa skriðið sem Holloway vill fara á í fæðingu. Ég trúi því ekki að Holloway hafi aðlagað og bætt sinn leik nægilega mikið á þeim tíma sem hefur liðið milli bardaga til að við sjáum einhver önnur úrslit en síðast. Volkonovski sigrar eftir dómaraúrskurð.

Alexander Volkanovski: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Max Holloway: ..

Titilbardagi í bantamvigt: Petr Yan gegn Jose Aldo

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður áhugavert. Maður hefur ekkert alltof mikla trú á 33 ára gömlum Aldo í bantamvigt ef ég á að segja eins og er. Aldo er samt ennþá mjög tæknilega góður boxari og er með góðar gagnárásir. Það hafa fáir náð að pressa Aldo vel nema Max Hollowy en hann er auðvitað hærri en Aldo. Þeir sem eru í svipaðri stærð og Aldo (Moraes, Edgar, Mendes og fleiri) hefur gengið illa að pressa Aldo og fengið að kenna á því með góðum gagnárásum. Yan gæti brennt sig á að vera of aggressívur gegn Aldo. Aldo er auðvitað með margfalt meiri reynslu á þessu getustigi í MMA á meðan bestu sigrar Yan komu gegn Jimmie Rivera og Urijah Faber.

Þeir æfðu líka saman um skeið fyrir nokkrum árum sem setur þetta í áhugavert samhengi andlega. Sagan segir að Aldo hafi haft mikla yfirburði þá. Yan er auðvitað mun betri í dag en hann var þá og Aldo kannski ekki eins seigur, en þetta gæti verið breyta. Mun þetta hafa hvetjandi áhrif á Yan þar sem hann verður staðráðinn í að sýna bætingarnar? Verður Yan ógnað þar sem hann veit hvernig þetta var síðast þegar þeir voru að sparra og verður Yan kannski hikandi? Mun Aldo kannski vanmeta Yan af því hann fór létt með hann fyrir nokkrum árum?

Það má síðan ekki gleyma að Aldo er mjög góður glímumaður. Það væri áhugavert að sjá hann taka þetta í gólfið og nota það sem vopn. Ég held að Aldo verði betri í fyrstu lotunum en svo tekur Yan yfir. Ég treysti ekki hökunni á Aldo nógu vel gegn ferskum Yan. Petr Yan sigrar með TKO í 4. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þetta er frábær bardagi þó svo að Aldo ætti ekki að vera þarna. Reynslan á móti nýstirninu. Aldo verður sterkur í fyrstu lotu en svo tekur Yan yfir. Segi að Yan vinni á TKO í fjórðu.

Guttormur Árni Ársælsson: Manni finnst ekki langt síðan að maður hefði spáð Aldo sigri gegn nánast hverjum sem er. Nú er svo komið að manni finnst Aldo ekki eiga skilið þennan titilbardaga og ég held því miður að Yan valti yfir hann. Yan hefur sigrað 9 í röð og hefur bara tapað einu sinni á ferlinum. Hann hefur litið rosalega vel út gegn sterkum andstæðingum. Á sama tíma hefur Aldo tapað fjórum af seinustu sex og vonandi fer hann að hætta þessu kallinn. Yan TKO í 2. lotu.

Halldór Halldórsson: Aldo funkerar þegar þegar hann fær frið til að koma sér í gírinn. Yan er stórhættulegur tindáti með mikinn eyðileggingarmátt sem setur alvöru pressu á andstæðinga sína, eitthvað sem Aldo líkar síður. Þessi pressa frá Yan verður til þess að hann stoppar Aldo í annarri lotu og þar með slúttar ferli Aldo í leiðinni. Tími Aldo er liðinn og tími Yan er kominn. Yan með KO í 2. lotu.

Petr Yan: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Jose Aldo:

Strávigt kvenna: Jessica Andrade gegn Rose Namajunas

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður mjög spennandi enda var fyrri bardaginn frábær! Síðast byrjaði Rose ógeðslega vel og hefur sennilega aldrei litið eins vel út og í fyrstu lotu í fyrra. En svo fór Andrade að sparka meira og Rose þreyttist. Pressan hjá Andrade var endalaus og var Rose ekki eins snögg út þegar leið á bardagann. Rose er tæknilega betri en Andrade er svo mikill tankur. Ef Rose nær að halda sér alveg frá clinchinu og halda sér frá búrinu (helst að lenda ekki fyrir aftan svörtu línurnar í búrinu) þá tekur hún þetta. Rose gæti líka notað spörkin sjálf til að halda Andrade frá sér. Rose gæti verið að vinna 99% tímans en rotast svo óvænt þannig að það er erfitt að tippa á þetta. Ég held samt að Rose komi öflug til leiks og klári Andrade með rear naked choke í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Andrade var nánast heppin að vinna síðast, Rose virkaði talsvert betri. Ég held að Rose muni lemja Andrade sundur og saman og jafnvel ná rothögginu, segjum í þriðju lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Andrade sigraði síðast þegar þessar tvær mættust í maí á síðasta ári en áður en hún slammrotaði hana í annarri lotu var Namajunas að vinna bardagann. Ég held að Namajunas sé týpan sem kemur alltaf sterkari til leiks eftir tap og að hún sigri nokkuð örugglega á stigum í þetta sinn.

Halldór Halldórsson: Namajunas er einfaldlega betri bardagamaður, svo einfalt er það. Ef hún nær að halda Andrade í hæfilegri fjarlægð og kemur í veg fyrir að Andrade nái að hleypa þessu upp í einhvern skrípaleik á Namajunas að vinna þennan bardaga nokkuð þægilega. Namajunas eftir eftir einróma dómaraákvörðun (30-27).

Rose Namajunas: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Jessica Andrade: ..

Fluguvigt kvenna: Paige VanZant gegn Amanda Ribas

Pétur Marinó Jónsson: Ég hef mjög gaman af Ribas. Held að hún verði fljótlega komin í titilbardaga í annað hvort strávigt eða fluguvigt. Ribas er góð standandi, svart belti í BJJ og júdó og einfaldlega mun tæknilegri en PVZ. PVZ má eiga það samt að hún er grjóthörð, með gott þol og setur upp hátt tempó. PVZ gæti unnið þetta með því að þreyta einfaldlega Ribas með háu tempói í bardaganum. Maður hefur líka ekki séð mikið af PVZ undanfarið, svo kannski er hún búin að bæta sig mikið tæknilega. Ribas er samt bara betri bardagakona að mínu mati og klárar PVZ með hengingu í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Paige er ágætlega solid en Ribas er með mikla yfirburði á gólfinu. Ribas sigrar með uppgjafartaki í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég á pínu erfitt með að verða spenntur fyrir þessum bardaga. Fluguvigt kvenna er rosalega grunn og manni finnst meistarinn Valentina Shevchenko ekki standa ógn af neinum í þyngdarflokknum. Ribas og Paige eru hvorugar í topp tíu. Paige er mjög vinsæl en það virðist frekar vera fyrir frammistöðu hennar í Dancing With the Stars og á Instagram en vegna hæfileika í búrinu. Hún hefur tapað þrem af seinustu fimm en vann þó Rachael Ostovich í janúar 2019 og hefur ekki barist síðan. Ég spái því að Ribas sigri á stigum í daufum bardaga.

Halldór Halldórsson: Paige hefði betur látið það ósagt að hún ætlaði að skoða í kringum sig eftir að síðasti bardaginn á samningnum hennar væri lokið. UFC ætla heldur betur að lækka markaðsvirði hennar með því að láta hana hafa Ribas sem er óþekkt nafn en á sama tíma stórhættuleg. Ribas subbar PVZ í fyrstu lotu takk fyrir. RNC í fyrri hluta 1. lotu.

Amanda Ribas: Pétur, Óskar, Guttormur, Halldór
Paige VanZant: ..

Heildarstig ársins:

Óskar: 21-4 *2019 meistarinn
Pétur: 20-5
Guttormur: 17-8
Halldór: 7-3
Arnþór: 5-5

spot_img
spot_img
Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular