Sú saga gengur nú um netheima að UFC ætli sér að segja upp samningum 50 bardagamanna. Nú þegar hafa sex fengið reisupassann og gætu fleiri fengið sparkið á næstu dögum.
Um 560 bardagamenn eru samningsbundnir UFC í dag. Af þeim sex bardagamönnum sem hafa nú þegar fengið samningi sínum rift á síðustu dögum kemur fátt á óvart. Stærstu nöfnin eru sennilega Marcus Brimage (4-4 í UFC) og Eddie Gordon (1-3 í UFC) en sá síðarnefndi sigraði 19. seríu The Ultimate Fighter. Brimage vann fyrstu þrjá bardaga sína í UFC áður en hann mætti Conor McGregor. Hann tapaði fjórum af síðustu fimm bardögum sínum og kemur þetta því ekki á óvart.
Matt Van Buren (0-2 í UFC), Roger Narvaez (1-2 í UFC), Chris Clements (2-2 (1)) og Christos Giagos (1-2) voru ekki með marga sigra að baki. Þeir bardagamenn sem eiga svipaðan feril að baki í UFC og fyrrgreindir menn hafa eflaust ekki sofið rótt um helgina vitandi af þessum orðrómi.
Það má nánast gera ráð fyrir að Francisco Trevino sé á meðal þeirra sem fær samningi sínum rift á næstu dögum. Hann tapaði fyrir Sage Northcutt fyrr í mánuðinum sem var hans annað tap í röð. Til að bæta gráu ofan á svart náði hann ekki léttvigtartakmarkinu fyrir bardagann, hrinti dómaranum eftir bardagann og féll á lyfjaprófi eftir bardagann. Það er ekkert sérstakt að tapa eftir tæpa mínútu og enn verra ef þú hefur gert fyrrnefnda hluti.