Friday, June 14, 2024
spot_img
HomeForsíðaUFC bætir við sig 5 nýjum bardagamönnum

UFC bætir við sig 5 nýjum bardagamönnum

UFC hefur verið að fækka bardagamönnum hjá sér og hafa menn eins og Yushin Okami, Jon Fitch og Cheick Kongo fengið að fara annað. Þeir hafa þó bætt við sig 5 nýjum bardagamönnum sem lofa góðu fyrir framtíðina. Þetta eru þeir Adam Khaliev, Tom Niinimaki, Andre Fili, Andreas Stahl og Alex Garcia

Ekki er vitað mikið um Adam Khaliev en hann kemur frá Tjetseníu og er ósigraður í 6 bardögum. Hann er með skemmtilegt vopnabúr af spörkum en þetta rothögg hér að neðan í hans öðrum MMA bardaga hefur hrifið marga. Það hefur verið talað um að hann sé að fara í UFC í um það bil ár en núna er það loksins staðfest. Hann hefur ekki keppt í MMA síðan í ágúst 2012 en hefur þess á milli keppt í Kudo mótum sem er blanda af karate og júdó. Hann er ekki kominn með neinn staðfestan bardaga í UFC.

Tom Niinimaki hefur lengi verið sagður á leið í UFC en fær nú loks tækifærið. Hann er 31 árs gamall og 20 sigra á bakinu og 5 töp. Hann hefur lengi verið einn af bestu fjaðurvigtarmönnum Evrópu og fær nú að spreyta sig gegn þeim allra bestu í heimi. Hann hefur sigrað 11 bardaga í röð og fær sinn fyrsta UFC bardaga á TUF 18 úrslitakvöldinu gegn Rani Yahya.

Andre Fili er 23 ára Team Alpha Male bardagamaður sem berst í fjaðurvigtinni. Hann hefur sigrað 12 bardaga og aðeins tapað einum og gæti bætt sig gríðarlega á næstu árum. Hann er ungur og fær væntanlega góða þjálfun hjá Team Alpha Male og gæti verið spennandi viðbót við fjaðurvigtina. Hann mun berjast á UFC 166 þann 19. október gegn Jeremy Larsen.

Andreas Stahl er ósigraður 25 ára Svíi með 9 bardaga á bakinu. Hann æfir með TUF keppandanum Tor Troeng í Sviðþjóð og keppir í veltivigt. Hann er nú þegar kominn með bardaga gegn Alex Garcia á ástralska UFC kvöldinu sem verður þann 7. desember. Af 9 sigrum hans hafa 5 komið eftir dómaraákvörðun og 3 eftir rothögg.

Andstæðingur hans er Alex Garcia og er einnig nýliði í UFC. Garcia er 26 ára veltivigtarmaður sem æfir hjá Tristar í Kanada. Hann er með 10 sigra og aðeins eitt tap en tapið kom gegn UFC veltivigtarmanninum Seth Baczynski. Af 10 sigrum hans hafa 4 komið eftir rothögg og 5 eftir uppgjafartak. Garcia minnir um margt á Hector Lombard og gæti verið spennandi viðbót við veltivigtina.

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular