Stjórnendur UFC, Dana White og Lorenzo Fertitta, funduðu með Nate Diaz í gær. Heimildir herma að samkomulag hafi ekki náðst.
Þeir Dana White, forseti UFC, og Lorenzo Fertitta, einn af eigendum UFC, funduðu með Conor McGregor á miðvikudaginn. Conor McGregor sagði fundinn hafa gengið vel.
Það sama er þó ekki hægt að segja um fund Nate Diaz með þeim White og Fertitta. Stjórnendur UFC flugu til Stockton í Kaliforníu til að ganga frá öðrum bardaga Nate Diaz og Conor McGregor á UFC 202 í ágúst.
Fundurinn í gær er sagður hafa gengið illa og á Dana White að hafa stormað út af veitingastaðnum samkvæmt slúðurmiðlinum TMZ.
Í samtali við TMZ sagði White: „Ég er augljóslega ekki að fara að greina frá smáatriðum samningsins en ég get sagt að ferðin mín til Stockton hafi ekki gengið vel.“
Aftur á móti birti Nate Diaz þessa mynd af þeim á Instagram brosandi og sáttir. Heimildir MMA Fighting herma Diaz og White hafi ýtt ósætti sínu til hliðar en ekkert samkomulag hefur náðst um komandi bardaga.
Eftir að Diaz frétti af fundi McGregor og stjórnenda UFC óskaði hann eftir fundi með þeim í heimabæ sínum, Stockton. Vonir stóðu til að samningur um annan bardaga Diaz og McGregor myndi nást en svo var ekki. Samningurinn er þó ekki af borðinu.