spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC London: Síðustu tveir bardagarnir áður en Gunnar berst

UFC London: Síðustu tveir bardagarnir áður en Gunnar berst

Nú styttist óðfluga í að við fáum að sjá okkar mann, Gunnar Nelson, stíga inn í búrið í O2 höllinni í London. Áður en Gunnar stígur í búrið fáum tvo áhugaverða bardaga.

Það mun enginn alvöru MMA aðdáandi láta þennan viðburð fram hjá sér fara en fyrir utan bardagann hans Gunna eru nokkrir skemmtilegir bardagar á dagskrá.

Fyrsti bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins fer fram í fjaðurvigt en þar mætast heimamaðurinn Arnold Allen og hinn stórskemmtilegi Finni Makwan Amirkhani. Báðir þessir kappar eru efnilegir og báðir hafa þeir sigrað fjóra í röð. Heimamaðurinn Allen er aðeins 23 ára og með bardagaskorið 11-1 en hefur verið frá keppni í rúmt ár. Síðast mætti hann Yaotzin Meza á UFC Fight Night: Silva vs. Bisping, en sá bardagi fór einnig fram í O2 höllinni í London svo hann ætti að vera góðu kunnur þar.

Andstæðingur hans, hinn finnski Amirkhani, skaust upp á stjörnuhimininn strax í sínum fyrsta UFC bardaga. Þá rotaði hann Andy Ogle með fljúgandi hnésparki eftir átta sekúndur og hlaut frammistöðubónus fyrir vikið. Í viðtalinu eftir bardagann gagnrýndi Joe Rogan ákvörðun dómarans en Amirkhani lét það lítið á sig fá og snéri atvikinu sér í hag á blaðamannafundinum eftir bardagann. Viðtölin má sjá hér fyrir neðan:

Amirkhani er með bardagaskorið 13-2 en hefur, líkt og andstæðingur sinn á laugardaginn, verið frá keppni í rúmt ár. Amirkhani æfði áður hjá Allstars bardagaklúbbnum í Svíþjóð en eftir eitthvað undarlegt drama, þar sem ónafngreindur aðili innan klúbbsins sveik traust hans, skipti hann um klúbb og æfir í dag með John Kavanagh og félögum hjá SBG í Írlandi.

Annar bardagi kvöldsins fer fram í bantamvigt en þar mætir heimamaðurinn og reynsluboltinn Brad Pickett Ekvadoranum Marlon Vera. Þetta mun verða síðasti bardagi Pickett en eftir frekar slakt gengi undanfarið hefur þessi 38 ára gamli Lundúnarbúi ákveðið að leggja hanskana á hilluna. Pickett hefur aðeins sigrað einn af síðustu sex en hefur reyndar mætt frekar sterkum andstæðingum undanfarið (Urijah Faber, Iuri Alcântara og Thomas Almeida til að mynda).

Ferill Pickett hefur spannað rúmlega 12 ár og hefur hann afrekað margt en hann er sem dæmi einn tveggja manna sem hafa sigrað fluguvigtameistarann Demitrious Johnson (hinn er Dominick Cruz). Það væri gaman fyrir Pickett að enda ferilinn á sigri og þrátt fyrir slakt gengi undanfarið ætti Pickett að eiga góðan möguleika á laugardaginn því andstæðingur hans kemur inn með aðeins sjö daga fyrirvara.

Marlon ‘Chito’ Vera er 24 ára, frá Ekvador og með bardagaskorið 8-3-1. Hann tók þátt í The Ultimate Fighter: Latin America seríunni þar sem hann keppti fyrir Team Werdum. Hann sigraði fyrsta bardagann sinn í keppninni með rothöggi en neyddist síðan til að hætta keppni eftir að hann fékk húðsýkingu.

Upprunalega átti Pickett að mæta Henry Briones en eftir að sá síðarnefndi þurfti að draga sig úr bardaganum á síðustu stundu steig Vera inn. Það er áhugaverð staðreynd að andstæðingurinn sem Vera sigraði með rothöggi í TUF var einmitt Henry Briones, maðurinn sem hann leysir nú af með sjö daga fyrirvara.

Aðalhluti bardagakvöldsins verður sýndur á Stöð 2 Sport og hefst kl 21.

spot_img
spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular