Það er ekkert UFC um helgina en hér má sjá nokkra UFC mola frá síðustu dögum.
Joanna og Claudia þjálfa TUF: Það verða þær Joanna Jedrzejczyk og Claudia Gadelha sem þjálfa 23. seríu The Ultimate Fighter. Þetta kom fram í útsendingu UFC Fight Night: Dillashaw vs. Cruz síðasta sunnudag. Strávigtarmeistarinn Jedrzejczyk mun svo verja beltið sitt gegn Gadelha á TUF Finale bardagakvöldinu 8. júlí eða daginn fyrir UFC 200.
Í seríunni verða bardagamenn í léttþungavigt og strávigt kvenna.
Sage Northcutt fær nýjan andstæðing: Hinn afar efnilegi Sage Northcutt átti að mæta Andrew Holbrook á UFC on FOX bardagakvöldinu þann 30. janúar. Nú hefur Holbrook þurft að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla en í hans stað kemur Bryan Barbarena. Bardagi Northcutt átti upphaflega að fara fram í léttvigt en bardaginn gegn Barbarena fer fram í veltivigt. Það gefur Barbarena meira svigrúm í niðurskurðinum og þarf því ekki að skera of mikið á of stuttum tíma.
Barbarena er ekki beint að koma af sófanum þar sem hann var nú þegar að undirbúa sig fyrir bardaga þann 21. febrúar. Barbarena er 1-1 í UFC en 10-3 í MMA. Hann er sterkur glímumaður og hefur klárað átta bardaga með rothöggi.
Staðfestar dagsetningar fyrir UFC í Króatíu og Hollandi: Líkt og við greindum frá í nýlega var talið að UFC myndi halda til Hollands og Króatíu í ár. Sá orðrómur reyndist á rökum reistur enda staðfesti UFC bardagakvöldin nýlega. UFC mun heimsækja Króatíu þann 10. apríl og í Rotterdam í Hollandi sunnudaginn 8. maí.