Við höldum áfram að hita upp fyrir bardagakvöldið í Rotterdam og nú skoðum við fyrstu þrjá bardagana á aðalhluta bardagakvöldsins. Þetta eru síðustu þrír bardagarnir áður en Gunnar berst.
Bantamvigt kvenna: Germaine de Randamie gegn Anna Elmose
Síðasti bardaginn áður en Gunnar byrjar er hörku kvennabardagi milli Germaine de Randamie og Anna Elmose. Randamie er hollensk bardagakona og mun væntanlega njóta mikils stuðnings áhorfenda. Hún er í 14. sæti á styrkleikalistanum og er þekkt fyrir gott hollenskt sparkbox.
Anna Elmose mun berjast sinn fyrsta bardaga í UFC á sunnudaginn. Þessi danska bardagakona hefur sigrað alla þrjá bardaga sína með rothöggum og er mjög sterk standandi. Þetta gæti orðið hörku skemmtileg standandi viðureign milli tveggja ólíkra stíla.
Léttþungavigt: Nikita Krylov gegn Francimar Barroso
Nikita Krylov er aldrei í leiðinlegum bardögum. Í 23 bardögum hefur hann aldrei farið allar þrjár loturnar. Eftir brösuga byrjun í UFC hefur hann nú unnið þrjá bardaga í röð í aldraðri léttþungavigtinni. Heldur hinn 24 ára Krylov áfram að koma á óvart?
Andstæðingur Krylov er Francimar Barroso. Barroso er stór Brasilíumaður sem kýs að halda bardaganum í „clinchinu“ án þess að gera mikið. Hann er þó með þungar hendur og hefur sigrað átta bardaga með rothöggi.
Strávigt kvenna: Karolina Kowalkiewicz gegn Heather Jo Clark
Fyrsti bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins fer fram í strávigt kvenna. Hin pólska Kowalkiewicz er ósigruð í átta bardögum og er fyrst og fremst boxari sem hendir einu og einu sparki með. Hún er ekki með mikinn höggþunga og yfirbugar andstæðinga sína yfirleitt með fjölda högga.
Heather Jo Clark var í 20. seríu The Ultimate Fighter. Hún hefur ekkert barist síðan í desember 2014 er hún sigraði Bec Rawlings. Hin 35 ára Clark á erfiðan bardaga fyrir vændum en gæti komið á óvart.
Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 18 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Sjá einnig: