Á morgun fer loksins fram stærsti bardagi allra tíma í fjaðurvigtinni þegar Jose Aldo mætir Conor McGregor. UFC 194 verður stærsta bardagakvöld ársins en kíkjum á rúsínuna í pylsuendanum – Aldo gegn McGregor.
Bardaginn hefur verið í bígerð í 11 mánuði og nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að hann fari fram. Upphaflega áttu þeir að mætast á UFC 189 í júlí en aðeins tveimur vikum fyrir bardagann dró Aldo sig úr bardaganum vegna rifbeinsmeiðsla.
Í hans stað kom Chad Mendes. Conor McGregor sigraði Mendes með tæknilegu rothöggi í 2. lotu og varð svo kallaður bráðabirgðarmeistari UFC (e. Interim Champion). Beltin verða svo sameinuð á morgun þegar þeir McGregor og Aldo mætast.
Jose Aldo er sá eini sem haldið hefur fjaðurvigtarbeltinu í UFC. Hann hefur ekki tapað í tíu ár og enginn komist nálægt því að sigra hann í WEC eða UFC.
Aldo ólst upp við gríðarlega fátækt í Brasilíu en tókst að koma sér í fremstu röð í MMA.
Sjá einnig: Erfið fortíð Jose Aldo
Aldo vakti fyrst athygli í WEC bardagasamtökunum. Þar sigraði hann átta bardaga og var kóngurinn í fjaðurvigtinni. WEC samtökin voru svo innleidd í UFC og þar hefur Aldo ríkt síðan.
Aldo er fyrst og fremst þekktur fyrir frábært Muay Thai. Hann er með eitruð spörk og þá sérstaklega hægra lágsparkið hans sem smellhittir oftast beint í lærið. Á undanförnum árum hefur hann bætt boxið sitt og er hann farinn að hreyfa hausinn mun betur en hann gerði á árum áður.
Aldo vinnur á frekar rólegum hraða. Hann er með þétta vörn og stjórnar fjarlægðinni vel með vinklum og beitir gagnárásum afar vel. Í hvert sinn sem hann kemur sér undan höggi andstæðingsins svarar hann með tveimur til þremur höggum.
Potturinn og pannan í leik hans standandi er stungan. Hann er með ófyrirsjáanlegan takt sem koma mótherjum hans oft á tíðum í opna skjöldu og nær þannig að lauma stungunni inn.
Flétturnar hjá Aldo eru líka einstakar. Hann er ótrúlega nákvæmur og blandar höggum í skrokk og höfuð betur en nokkur annar í MMA.
Eins og áður segir er Aldo þekktur fyrir lágspörkin sín og ekki að ástæðulausu. Hann annað hvort sparkar án þess að setja sparkið upp með höggum á svo gríðarlegum hraða að andstæðingarnir sjá ekki sparkið; eða sparkar eftir fléttu (oftast eftir vinstri krók í skrokkinn) þegar hann pressar fram. Allir andstæðingar hans vita af þessum spörkum og hafa undirbúið sig fyrir spörkin. Samt sem áður tekst engum að verjast spörkunum.
Þrátt fyrir að hafa mætt öllum bestu glímumönnunum í þyngdarflokknum eins og Frankie Edgar, Chad Mendes og Ricardo Lamas er Aldo með 91% felluvörn í UFC. Líklegast er hann með bestu felluvörn í sögu MMA.
Aldo er samt ekki bara góður standandi. Hann er svart belti í brasilísku jiu-jitsu og þykir afar góður í gólfinu. Hann er bara svo góður standandi að hann hefur ekki þurft að nota glímuna sína mikið. Þegar hann fer í fellur eru þær gífurlega vel tímasettar og hefur hann tekið sterka glímumenn á borð við Ricardo Lamas niður. Margir telja að Aldo muni beita fellunum gegn McGregor.
Aldo hefur verið sagður taka það rólega gegn andstæðingum sem eru ekki jafn góðir og hann. Aldo sker mikið niður til að ná 145 punda takmarkinu og á hann það til að taka fótinn af bensíngjöfinni þegar líður á bardagann til að spara sig.
Chad Mendes háði frábæran bardaga gegn Jose Aldo í október í fyrra en fyrir utan það hefur Aldo átt í litlum erfiðleikum með mótherja sína. Á morgun mun hann hins vegar ekki getað slakað neitt á þar sem Aldo fær týpu af andstæðingi sem hann hefur aldrei mætt áður.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga:
- Ekkert barist síðan í október 2014: Jose Aldo hefur ekki barist í meira en ár. Mun það hafa einhver áhrif á hann á morgun?
- Hungraður: Aldo er sagður vera gífurlega hungraður fyrir þennan bardaga vegna hegðun McGregor. Að sögn æfingafélaga hans hefur hann ekki litið svona vel út á æfingum í nokkur ár. Hann ætlar að refsa McGregor fyrir ummæli sín.
https://www.youtube.com/watch?v=Y8chBGjXIZo&feature=youtu.be
Conor McGregor er ein stærsta stjarnan í UFC um þessar mundir. Hann rífur kjaft, gengur um í dýrum jakkafötum, verslar rándýr úr og bíla og vekur athygli hvert sem hann fer. Þrátt fyrir allt það er hann ótrúlegur bardagamaður. Það er ekki að ástæðulausu að hann er búinn að vinna 14 bardaga í röð og aðeins einn af þeim hefur farið allar þrjár loturnar.
McGregor byrjaði sem boxari og var gríðarlega fær sem slíkur. Hann keppti mikið í boxinu en eitt árið keppti hann hverja einustu helgi eða um það bil 50 bardaga á einu ári. Síðar skipti hann yfir í MMA og er hann í dag sannkallaður bardagalistamaður.
Hans sterkasta vopn er vinstri höndin. Úr örvhentri fótastöðu nær hann alltaf að hitta með beinni vinstri. Höggið er nákvæmt og hratt og það er ávísun á rothögg. Á síðustu árum hefur hann einnig bætt við sig spörkum úr karate og taekwondo sem hafa gefið góðan árangur. McGregor getur beitt öllum þessum áberandi spörkum að því að hann lendir alltaf í fullkomni boxstöðu eftir spörkin og er tilbúinn að svara.
Þegar McGregor kom inn í UFC beitti hann fyrst og fremst gagnárásum. Í dag er hann mun meiri pressubardagamaður og snýst allt um að fá andstæðinginn til að bakka. Þeir sem hafa æft með honum segja að þessi pressa sé gífurlega óþægileg og fær pressan mótherjana til að panica oft á tíðum.
McGregor er líka með einstaklega gott vinstri háspark og notar það margsinnis í hverjum bardaga. Ef andstæðingar hans ætla að slippa þessa hættulegu beinu vinstri frá McGregor eiga þeir von á vinstra hásparkinu. Sé haus þeirra grafkyrr eiga þeir von á að fá beina vinstri beint í smettið. McGregor er gríðarlega fær í að finna opnur á vörn andstæðinganna.
Þegar McGregor hefur króað andstæðinga sína upp við búrið lætur hann höggin dynja á mótherjanum þar sem hann kemur með allt að 35 högg á mínútu. Það er fáranlegt magn af höggum.
McGregor étur alltaf nokkur högg í hverjum bardaga en McGregor hreyfir þó hausinn vel með höggunum sem hjálpa honum að éta mörg af þessum höggum. Auk þess er hann með granít harða höku og virðist aldrei vera í hættu standandi.
McGregor heldur oftast bardaganum standandi en er með fínar fellur sjálfur. Ofan á er hann með grimma olnboga og velur höggin sín afar vel.
Gegn Mendes sáum við McGregor tekinn niður og átti hann í erfiðleikum með að koma sér upp aftur. Að margra mati sáum við þar stærsta veikleika McGregor, felluvörnin. Að sama skapi sáum við líka einn af hans helstu styrkleikum – andlegi styrkurinn. Þrátt fyrir að vera að tapa gegn Mendes, alblóðugur og í bullandi vandræðum, fann hann samt leið til sigurs. Hann lét Mendes ekki buga sig og tókst að klára einn besta glímumanninn í þyngdarflokknum.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga:
- Ný vopn: McGregor virðist alltaf koma með eitt nýtt vopn í hverjum bardaga. Hvaða vopn verður það gegn Aldo?
- Örvhentur: Jose Aldo hefur aðeins mætt tveimur örvhentum andstæðingum áður (Kenny Florian og Jonathan Brookins). Hvernig mun honum vegna gegn besta örvhenta boxaranum í MMA?
- Aldrei farið fleiri en þrjár lotur: Jose Aldo hefur verið í mörgum fimm lotu stríðum en að sama skapi hefur McGregor aðeins einu sinni farið allar þrjár loturnar og aldrei fimm lotur. Hvernig mun McGregor vera fari bardaginn í seinni lotur bardagans?
https://www.youtube.com/watch?v=f_biPEdthlk
Spá MMA Frétta: Jose Aldo er besti fjaðurvigtarmaður allra tíma og einn af bestu bardagamönnum heims frá upphafi. Enginn getur haldið beltinu að eilífu og sá tími mun koma þar sem Aldo tapar beltinu. Sá tími er kominn núna. Conor McGregor sigrar með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.