Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaUpphitun fyrir lokakvöld The Ultimate Fighter 18: Team Rousey vs. Team Tate...

Upphitun fyrir lokakvöld The Ultimate Fighter 18: Team Rousey vs. Team Tate (annar hluti)

Á laugardagskvöld fara úrslit átjándu þáttaraðar raunveruleikaþáttarins The Ultimate Fighter (TUF) fram í Las Vegas. Þetta er fyrsta þáttaröðin sem konur hafa tekið þátt svo þetta kvöld mun fyrsti kvenkyns sigurvegari TUF verða krýndur.

Aðalbardagi kvöldsins er þriðja viðureign Gray Maynard og Nate Diaz.

 

Chris Holdsworth vs. David Grant – Bantamvigt

image.resize.330.186

Í úrslitum karla mætast Bandaríkjamaðurinn Chris Holdsworth og Bretinn David Grant.

Chris Holdsworth vakti athygli fyrir að vera líklega með besta BJJ af öllum í TUF-húsinu að þessu sinni. Hann er þó ekki bara góður í gólfglímu, heldur er hann líka tæknilegur og með öll grundvallaratriði á hreinu standandi, þannig að hann er hættulegur alls staðar.

Holdsworth hafði klárað alla fjóra atvinnumannabardaga sína með uppgjafartaki áður en hann komst inn í TUF og hélt uppteknum hætti í keppninni. Í bardaganum til að komast í húsið mætti hann Louis Fisette og kláraði hann með uppgjafartaki í fyrstu lotu eftir hraðan og spennandi bardaga. Hann gerði það sama í annarri umferð, þegar hann afgreiddi Chris Beal með guillotine-hengingu í fyrstu lotu eftir að hafa verið með yfirhöndina allan bardagann.

Í undanúrslitunum greip Holdworth strax um Michael Wooten, tók hann niður og náði svo bakinu á Wooten þegar hann reyndi að standa upp. Wooten gat ómögulega hrist sig lausan, svo Holdworth náði hengingunni. Það er nokkuð víst að hann stefnir á að reyna að ná uppgjafartaki gegn Grant, en Grant er sterkur og fjölhæfur bardagamaður með góða gólfglímu, svo það gæti reynst erfitt að læsa einhverju á hann.

David Grant tapaði fyrsta atvinnumannabardaga sínum, en síðan hefur hann unnið átta í röð, þar af sjö með uppgjöf og einn með tæknilegu rothöggi. Aðeins tveir af bardögum hans hafa farið inn í aðra lotu.

Grant vann bardagann til að komast inn í húsið með armbar í annarri lotu og í fyrstu umferð keppninnar mætti hann Louis Fisette, sem kom í staðinn fyrir meiddan keppanda. Grant sigraði bardagann með miklum yfirburðum, lenti mörgum góðum höggum í gólfinu í fyrstu lotu og í annarri lotu tók hann Fisette beint aftur í gólfið og náði hengingu. Grant þurfti svo ekki að berjast í undanúrslitunum, því andstæðingur hans, Anthony Gutierrez náði ekki þyngd og varð að draga sig úr bardaganum.

David Grant er stórhættulegur í gólfinu svo hann verður ekki auðveld bráð fyrir BJJ-ið hans Holdsworth. Grant er líka höggþungur og með fína höggtækni, þannig að hann gæti gert Holdsworth lífið leitt standandi.

Spá MMA frétta: Grant er of sterkur og góður glímumaður fyrir Holdsworth en forðast að fara í gólfið með honum svo þeir enda með að standa meirihlutann af bardaganum. Grant sigrar Holdsworth með tæknilegu rothöggi.

 

Julianna Peña vs. Jessica Rakoczy – Bantamvigt kvenna

1480668_546803285394396_982660283_n

Í úrslitum kvenna mætir Bandaríkjamaðurinn Julianna Peña hinni kanadísku Jessica Rakoczy, sem var elsti keppandinn að þessu sinni.

Julianna Peña kláraði andstæðinginn í fyrstu fjórum atvinnumannabardögum sínum en tapaði svo tvisvar áður en hún keppti í TUF, m.a. gegn keppandi í þessari þáttaröð.

Peña sýndi enga snilldartakta í bardaganum til að komast inn í TUF-húsið, heldur rétt marði hún sigur í dómaraúrskurði. Það breytti því þó ekki að þjálfarinn Miesha Tate, sem er náin vinkona hennar, valdi hana fyrst í sitt lið. Tate átti svo eftir að eyða miklum tíma í að þjálfa Peña, of miklum, að mati sumra liðfélaga hennar sem vildi fá meiri athygli frá Tate. En tíminn sem þær eyddu saman var greinilega nýttur vel, því Peña stóð sig mun betur í næstu tveimur bardögum.

Í fyrstu umferð mætti hún Shayna Baszler og allir voru sannfærðir um að Baszler myndi vinna, því hún var talin sigurstranglegust af öllum konunum í keppninni. En Peña réðst á Baszler eins og hún væri andsetin og fleygði þungum höggum, sem voru hættuleg þó þau skorti tækni. Baszler náði að sigra fyrstu lotu með fellu, en í annarri lotu kom Peña öllum á óvart, lúbarði Baszler og náði hengingu.

Í undanúrslitunum fékk Peña tækifæri til að hefna fyrir annað af tveimur töpum sínum þegar hún mætti Sarah Moras, en hún sigraði Peña í apríl 2012. Peña var ekki sami bardagamaður og síðast þegar þær mættust. Hún endaði ofan á snemma í fyrstu lotu þegar Moras reyndi að fella hana og stjórnaði því sem eftir var af lotunni. Í annarri lotu lenti hún aftur ofan á, gaf Moras skurð og endaði bardagann með guillotine-hengingu.

Peña er ekki sérlega tæknileg standandi en bætir upp fyrir það með höggþunga og árásargirni. Þegar kemur að gólfglímunni sýnir hún árásargirni, góða stjórn í toppstöðu og er alltaf að reyna að enda bardagann.

Jessica Rakoczy á að baki glæsilegan feril í hnefaleikum og er margfaldur heimsmeistari í þeirri íþrótt. Henni hefur þó ekki gengið mjög vel að færa sig yfir í MMA. Hún hefur aðeins náð einum sigri sem atvinnumaður, en tapað þrisvar, þó að það hafi að vísu verið gegn erfiðum andstæðingum. Hún vann samt síðasta MMA-bardaga með rothöggi. Hún sneri aftur í boxið í maí 2012 og náði sér í tvo sigra, síðast í janúar 2013, þegar hún tryggði sér ofur-bantamvigtarbelti WIBA. Það var síðasti bardagi hennar fyrir TUF.

Rakoczy vann bardagann til að komast inn í húsið með omoplata-uppgjöf í fyrstu lotu. Í fyrstu umferð mætti hún svo reynsluboltanum Roxanne Modafferi og náði að klára hana með tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

Rakoczy mætti Raquel Pennington í undanúrslitunum. Fyrsta lota var viðburðasnauð og þær virtust báðar hikandi, enda báðar meiddar. Í annarri lotu fór Rakoczy hins vegar að sækja í sig veðrið og tókst að nota góða fótavinnu til að lenda góðum höggum og brjóta Pennington niður. Hún lenti aðallega beinum höggum sem voru ekki sérlega föst, en hún var greinilega með yfirhöndina. Þriðja lota var svo meira af því sama.

Spá MMA frétta: Þó Rakoczy hafi komist inn í húsið með omoplata-uppgjöf virðist hún frekar einhæfur bardagamaður. Hún er afar góður boxari og með ágæta felluvörn, en Peña er líklega betri í gólfinu og hættuleg standandi, þó hún sé ekki jafn tæknileg og Rakoczy. Peña tekur Rakoczy niður og sigrar hana með uppgjöf eða tæknilegu rothöggi í gólfinu.

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular