Valgerður Guðsteinsdóttir var rétt í þessu að vinna sinn annan atvinnubardaga í hnefaleikum. Valgerður vann allar loturnar og var sigurinn í raun aldrei í hættu.
Bardaginn fór fram á stóru boxkvöldi í Noregi og var Valgerður í 2. bardaga kvöldsins. Valgerður mætti Marianna Gulyas frá Ungverjalandi en þetta var 39. atvinnubardagi Gulyas.
Valgerður stjórnaði bardaganum allan tímann og kýldi Gulyas niður í 1. lotu. Dómararnir voru ekki í nokkrum vafa hver hefði unnið bardagann og var niðurstaðan 40-35 Valgerði í vil.
Þetta er virkilega vel gert hjá Valgerði enda var hún að keppa við mun reyndari andstæðing. Þetta gæti reynst góður stökkpallur fyrir hana enda var þetta stærsti viðburður í sögu kvennabox á Norðurlöndunum. Valgerður er núna 2-0 sem atvinnumaður og verður gaman að fylgjast með hennar næstu skrefum.