spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentVar þetta allt fyrirfram planað og leikið?

Var þetta allt fyrirfram planað og leikið?

@natediaz209 storms out of the @ufc press conference #ufc #209 #mma #ufc202 #gingerbeardphotography

A photo posted by Dave Fogarty (@ginger_beard_photos) on

Ótrúleg atburðarrás átti sér stað fyrr í kvöld þegar Conor McGregor og Nate Diaz köstuðu flöskum í átt að hvor öðrum. Samfélagsmiðlar loga og halda margir að þetta hafi verið fyrirfram planað.

UFC elskar peninga og það vita allir. Áhuginn fyrir bardaganum hefur aukist eftir þessa uppákomu og það mun gefa UFC meiri tekjur á laugardaginn. Það er samt ansi hæpið að segja að UFC myndi setja svona lagað upp svo skömmu fyrir bardaga.

Í fyrsta lagi hvernig myndu þeir fara að því? Koma Conor og Diaz saman á leynifund, plana útgöngu Nate Diaz og segja þeim að kasta flöskum í hvorn annan? Það hljómar ósennilega. Svona fíflalæti er slæmt fyrir ímynd UFC til langs tíma litið og UFC reynir hvað það getur til að vera alvöru íþrótt eins og t.d. NBA og NFL.

Í öðru lagi er þetta afskaplega hættulegur leikur að kasta vatnsflöskum og orkudrykkjadósum í bardagamenn sem eru að fara að berjast eftir þrjá daga. Það þarf ekki mikið til að skurður opnist og þá er bardaginn af borðinu. Auk þess hefði ein dósanna auðveldlega getað hitt áhorfenda og hefði UFC getað átt von á lögsókn ef slíkt hefði gerst.

Í þriðja lagi eru þeir ekki svona góðir leikarar.

Að auki þarf fólk að skilja Diaz bræðurna. Þeir eru „as real as it gets“. Koma beint úr slæmu hverfunum í Stockton (sem er sögð ein versta borg Bandaríkjanna) og þola ekki þegar þeir þurfa að hanga með öðrum bardagamönnum sem þeir gætu mögulega þurft að berjast við. Þeir hafa oft átt í deilum við önnur lið eins og þegar kapparnir réðust á Mayhem Miller í Strikeforce á sínum tíma. Var það líka fyrirfram ákveðið?

Nate Diaz hefur ekki verið sáttur þegar Conor mætti hálftíma of seint á blaðamannafundinn. Nick Diaz, eldri bróðir hans og fyrirmynd, gefur honum merki um að fara bara og ekki láta Conor komast upp með svona. Þegar Nate er að fara ásamt öllu liði sínu (sem eru margir hverjir mjög svipaðar týpur og Diaz bræðurnir) sendir hann Conor og hans liði tóninn. Conor svarar auðvitað og meiri hiti færist í leikinn.

Það sorglega við þetta kannski er að svona hegðun kemur manni eiginlega ekkert á óvart. Báðir láta oft ansi illa og skiptir þá engu máli hvort myndavélar séu á stjá eða ekki. Conor leggur mikið upp úr því að tala um andstæðinginn og heldur einhver að hann myndi bara sitja rólegur á meðan Nate Diaz kastar flöskum í hann og sýnir honum fingurinn?

Þetta mun eflaust ekki hafa nein áhrif á bardagann. Báðir koma heilir úr þessu en fá væntanlega einhverjar sektir frá íþróttasambandi Nevada fylkis (NAC).

Þrátt fyrir lætin er ekkert raunverulegt hatur þarna á milli. Þetta er bara æsingur í mönnum rétt fyrir bardaga. Þeir eru jú að fara að berjast en ekki spila borðtennis. Það er smá hiti í mönnum og miklar tilfinningar. Eins og Nate Diaz hefur oft sagt að það er ekkert grín við þennan bardagaheim. Hann er jú að fara í búr til að slást við annan mann. Það er smá testósterón í loftinu og þráðurinn oft stuttur svona skömmu fyrir bardaga.

Við teljum það því ansi ólíklegt að þetta hafi verið fyrirfram planað. Þeir sem voru á staðnum virðast vera á sama máli.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular