Saturday, April 20, 2024
HomeErlentVélmennið Cain Velasquez

Vélmennið Cain Velasquez

Cain VelasquezCain Velasquez er þungavigtarmeistari UFC. Hann hefur verið þjakaður af meiðslum á undanförnum árum en snýr loksins aftur í búrið á laugardaginn er hann mætir Fabricio Werdum.

Það er óhætt að segja að Cain Velasquez sé ótrúlegur íþróttamaður. Honum hefur margoft verið líkt við tortímandann og ekki að ástæðulausu. Maðurinn heldur endalaust áfram og eltir andstæðinga sína um búrið líkt og tortímandinn.

Hann virðist vera með endalaust þol og brýtur andstæðingana niður í búrinu. Velasquez veit að hann getur haldið endalaust áfram og setur því upp hraða í bardaganum sem andstæðngar hans höndla ekki. Það er hans sterkasta vopn.

Það er sjaldséð að sjá þungavigtarmann með svona gríðarlega gott þol og er hann sennilega með betra þol en margir í léttari þyngdarflokkum. Þolið hans er sagt standast samanburð við maraþon hlaupara en fæstir maraþon hlauparar eru 110 kg.

Þátturinn Sport Science framkvæmdi nokkur próf á Cain Velasquez fyrir bardaga hans gegn Brock Lesnar.

Það ætti að taka þessar líkingar Sport Science með smá fyrirvara en hver sem er getur séð að Velasqeuz er þolvél.

Hann er ekki bara vél í hringnum heldur hafa þjálfarar og æfingafélagar hans líkt honum við vélmenni utan búrsins. Velasquez er ekki vanur að kvarta yfir sársauka og eymslum. Þjálfarar hans þurfa vanalega að spurja hann hvort honum sé einhvers staðar illt og hvort hann geti yfir höfuð æft. Ef þeir spyrja hann ekki æfir hann bara á fullum hraða þrátt fyrir meiðsli. Það er kannski ein ástæða fyrir öllum meiðslunum.

Hann er ávallt gríðarlega yfirvegaður og sagður hreinlega leiðinlegur. Hann gefur lítið af sér í viðtölum og sýnir sjaldnast miklar tilfinningar. Tilfinningaskalinn er ekki breiður og er hann þurr í viðtölum. Það má kannski frekar skrifa á feimni enda geta ekki allir verið eins og Conor McGregor í viðtölum.

Hann hefur víst alltaf verið svona og hefur hann nánast ekkert breyst eftir að hann varð stjarna í MMA heiminum. Til að mynda skúrar hann enn æfingasalinn líkt og hann gerði er hann var ungur og upprennandi bardagamaður.

Það verður kærkomið að sjá þungavigtarmeistarann loksins aftur í búrinu á laugardaginn. Bardaginn á laugardaginn er aðalbardagi UFC 188. Bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin kl 2.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular