Jake Shields tapaði síðastliðið laugardagskvöld gegn Hector Lombard en gæti hann fengið Fitch/Okami meðferðina og verið rekinn úr UFC?
Það þarf engum blöðum að fletta um það að Jake Shields er frábær bardagamaður. Hann var um tíma Strikeforce millivigtarmeistarinn og barðist um veltivigtartitilinn gegn George St. Pierre þar sem hann tapaði. Hann hefur þó alltaf fengið mikla gagnrýni fyrir að vera ekki nógu skemmtilegur bardagamaður og ekki klárað bardaga síðan hann hengdi Robbie Lawler í júní 2009. Þrátt fyrir sína galla verður því ekki neitað að hann er frábær glímumaður og sigrar sennilega 95% af veltivigarmönnum heims.
UFC einblínir mikið á skemmtanagildið. Ef bardagamenn eru ekki spennandi og skemmtilegir þá fá þeir síður titilbardaga og fá fyrr að fjúka en aðrir. Svo gæti farið að Shields fái sömu meðferð og Jon Fitch og Yushin Okami fengu á sínum tíma. Báðir voru mjög sterkir bardagamenn í sínum þyngdarflokki en, líkt og Shields, þóttu þeir alls ekki nógu spennandi.
Shields er sennilega á frekar háum samningi þar sem hann kom í UFC sem Strikeforce millivigtarmeistarinn en Okami og Fitch voru báðir á fínum samningi þegar þeir voru látnir fara. Fregnir herma að Shields eigi bara einn bardaga eftir af núgildandi samningi og því gæti UFC nýtt tækifærið og sagt samningi Shields upp fyrst hann tapaði um helgina. Það verður þó að teljast ansi ósanngjarnt að UFC getur sagt upp samningum sínum við bardagamenn sína hvenær sem er en bardagamennirnir þurfa alltaf að klára alla sína bardaga áður en þeir halda annað (kjósi þeir það).
Það má heldur ekki gleyma því að Jake Shields féll á lyfjaprófi eftir bardaga sinn við Ed Herman árið 2012 og það var ekki til að skapa vinsældir hjá UFC. Margir telja að Shields muni fá Fitch og Okami meðferðina en það gæti komið í ljós næstu vikurnar.