Þeir Daniel Cormier og Stipe Miocic mætast um þungavigtartitilinn á laugardaginn. Verður sigurvegarinn sá besti í sögu þungavigtarinnar?
UFC 252 fer fram í Las Vegas á laugardaginn í Apex æfingaaðstöðu UFC. Dana White, forseti UFC, hefur talað um að sigurvegarinn verði sjálfkrafa besti þungavigtarmaður í sögu UFC. En hefur hann eitthvað til síns máls?
Við skulum byrja á því að hafa eitt á hreinu – sama hvernig fer verður Fedor Emelianenko ennþá besti þungavigtarmaður í sögu íþróttarinnar. Hann barðist auðvitað aldrei í UFC og því er titillinn „besti þungavigtarmaður í sögu UFC“ laus.
Beltið í þungavigt UFC hefur alla tíð verið eins og heit kartafla. Fáir ná að verja titilinn og þeir sem ná því hafa aldrei varið það oftar en tvisvar eða þar til Stipe Miocic tókst það. Stipe Miocic er með flestar titilvarnir í sögu þungavigtar UFC með hvorki meira né minna en þrjár (3) titilvarnir. Það er nú ekkert rosalega mikið.
Daniel Cormier hefur þegar sigrað Stipe einu sinni og má alveg færa rök fyrir því að hann sé sá besti í sögu þungavigtarinnar með öðrum sigri á Stipe. Ég á samt svo erfitt með að kaupa það þar sem Cormier er sem stendur með fjóra sigra (Derrick Lewis, Stipe, Roy Nelson og Frank Mir) í þungavigt UFC. Ef sá fimmti bætist við er hann með flotta ferilskrá en samt ekki nóg til að vera sá besti.
Ferilskrá Stipe er sú besta í þungavigt UFC. Hann hefur unnið góða bardagamenn á borð við Francis Ngannou, Daniel Cormier, Junior dos Santos, Fabricio Werdum, Alistair Overeem, Mark Hunt og Andrei Arlovski.
Að mínu mati eru titilvarnirnar ekki nógu margar til að þetta sé einhver einróma ákvörðun um að hann sé sá besti. Það er bara enginn GOAT í þungavigt UFC en Stipe kemst næst því með sigri á laugardaginn.
Þessi GOAT umræða í hverjum flokki fyrir sig er líka dálítið þreytt í svona ungri íþrótt. Það eru tæp 30 ár síðan þessi íþrótt varð til af einhverju viti. Það er líka frekar þreytt að heyra bardagamenn sem eru búnir að verja titilinn 3-4 sinnum tala um sig í umræðunni sem þann besta í sögu þyngdarflokksins (já ég er að horfa á þig Tyron Woodley). Þetta skiptir auðvitað engu máli en er skemmtilegt umræðuefni meðal aðdáenda.
Stipe er með bestu ferilskrána eins og staðan er núna. Hann er með flestar titilvarnir, með 13 sigra í UFC og hefur hefnt fyrir tvö stærstu töpin sín. Cormier er goðsögn en að mínu mati er ótímabært að krýna einhvern sem besta þungavigtarmann í sögu UFC um helgina.
For the final time 🏆 We'll see you Saturday night.
— UFC (@ufc) August 12, 2020
LIVE on PPV ➡️ https://t.co/F5vdwUv1iB #UFC252 pic.twitter.com/FyYstI5qU7