spot_img
Friday, October 4, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaViðtal: Halldór Logi Valsson leggur í BJJ ferðalag

Viðtal: Halldór Logi Valsson leggur í BJJ ferðalag

Halldór Logi Valsson er að leggja af stað í æfingarferð til að æfa Brasilískt Jiu Jitsu. Við hjá MMA fréttum náðum af honum tali þar sem hann var staddur í Bretlandi, en þar hefur hann fyrsta hluta æfingarferðarinnar.

Mynd: Jón Viðar Arnþórsson

Kynntu þig fyrir lesendum MMAfrétta. Hver er Halldór Logi?

Ég er ósköp venjulegur 18 ára drengur frá Akureyri með stóra drauma. Æfi hjá Fenrir Akureyri og elska það!

Var BJJ fyrsta bardagaíþróttin sem þú byrjaðir að æfa? Hvernær byrjaðiru?

Ég byrjaði að æfa bardagaíþróttir samhliða fótbolta þegar ég var 14-15 ára, mætti á eina æfingu á viku og vissi aldrei hvort það væri BJJ eða “striking”. Skipti mig svo sem ekki máli, fannst ég bara rosalega töff. Ákvað síðan fyrir einu og hálfu ári að hætta að sparka í tuðru og einbeita mér að BJJ. Skráði mig í einkatíma hjá Ingþóri og þá var fræinu sáð. Sé ekki eftir því í dag!

Nú ert þú að fara að hefja hálfgerða heimsreisu til að æfa BJJ, hvernig fékkstu þá hugmynd?

Ég fékk þessa flugu í hausinn einn daginn, hef alltaf haft mikinn áhuga á að ferðast og hugsaði með mér að slá tvær flugur í einu höggi með því að æfa BJJ líka. Sá fyrir mér að ég gæti ferðast og æft jiu jitsu á sama tíma og það gæti hreinlega ekki klikkað. Ég hugsaði með mér að skólinn gæti beðið, svo ég tók mér pásu, fór að vinna og safnaði fyrir ferðinni og núna ári seinna er ég staddur í Lundúnum að lifa draumnum mínum.

Nú hefur þú keppt einn MMA bardaga. Ætlar þú að taka fleiri bardaga í þessari ferð eða einbeita þér eingöngu að BJJ?

Hugmyndin var upprunulega að æfa bara jiu jitsu-ið. Hef samt rosalega gaman af því að blanda þessu öllu saman og reyni að taka “striking” af og til. Hugsa með mér að ég komi til með að reyna að æfa smá “wrestling” og “striking” einnig, þótt að jiu jitsu sé megin atriðið. Mér finnst líklegt að ég gæti tekið einn áhugamannabardaga í Danmörku, bara svona til að “testa” sjálfan mig.

Ertu búinn að ákveða alla áfangastaðina? Hvernær býstu við að koma heim aftur?

Upprunulega átti þessi ferð að vera bara til Bandaríkjana, hafði dreymt um New York lengi og þangað var förinni heitið. Upp komu síðan fullt af tækifærum til að fara eitthvað að æfa, ég greip nokkur þeirra, þó ég væri að gera mitt besta til þess að spara. Í júni fór ég síðan til Danmörku í svo kallað “BJJ Summercamp” þar sem ég kynntist helling af fólki allstaðar af úr heiminum. Planið var enn í nóvember að fara bara til Bandaríkjana, æfa hjá Marcelo Garcia, Matt Serra og fleirum – eitthvað sem öllum dreymir um. En af einhverjum ástæðum snérist mér hugur um miðjan desember og ég ákvað að mig langaði frekar að ferðast meira og fara frekar um Evrópu og geyma Bandaríkin í bili. Ég hafði samband við fólkið sem ég hafði verið með úti í Damörku í gegnum Facebook og margir höfðu samband til baka þar sem þeir buðu mér stað til að gista á og stað til að æfa. Ég er staddur núna í London og planið er að þræða Bretlandseyjar áður en ég fer til Parísar, þaðan fer ég til Sviss, Þýskalands og að lokum Danmörku. Ég býst við að enda í Danmörku í apríl, vera þar í góðan mánuð, taka opna Danska mótið, jafnvel einn MMA bardaga og síðan heim!

Áttu þér uppáhalds uppgjafartak í Jiu Jitsu?

Mitt uppáhalds uppgjafartak hlýtur að vera “triangle” hengingin. Fíla líka “omoplata” í tætlur.

Hverjar eru fyrirmyndir þínar í BJJ og MMA?

Fer ekki langt út fyrir landsteinanna þegar kemur að fyrirmyndum mínum. Árni Ísaksson er ástæðan fyrir því að ég byrjaði að æfa. Ég las grein um hann þegar ég var yngri, fannst þetta ýkt kúl og varð að prófa. Hef líka alltaf litið upp til Ingþórs þjálfara míns heima, frábær þjálfari og góður vinur. Christian Graugart eigandi CSA í Danmörku og stofnandi BJJ Globetrotters hefur líka hjálpað mér rosalega mikið með allt sem við kemur þessari ferð svo eitthvað sé nefnt, frábær gaur. Síðan er Gunnar Nelson auðvitað fyrirmynd allra sem við koma þessu sporti!

Hver eru framtíðarplön þín í bardagaíþróttum? Ertu með plön um að verða atvinnumaður í MMA?

Spái voða lítið langt í framtíðina en auðvitað stefni ég sem lengst, þótt markmiðið sé ekki endilega að verða sá besti, heldur aðallega að vera ángæður með sjálfan mig og líða vel. Þá held ég að ég geti verið sáttur.

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?

Ég held uppi smá bloggi um ferðina: Halldorlogibjj.wordpress.com ef þið hafið áhuga á að fylgjast með! Reyni að vera duglegur að blogga þegar ég kemst í netsamband. Ég væri lika til í að þakka öllum þeim sem hafa stutt mig!

MMA fréttir þakkar Halldóri kærlega fyrir þetta viðtal en við munum heyra aftur í honum síðar.

spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular