spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaViðtal: Ólafur Waage missti um 40 kg eftir að hann byrjaði í...

Viðtal: Ólafur Waage missti um 40 kg eftir að hann byrjaði í BJJ!

oliw
Mynd: Jón Viðar Arnþórsson

Ólafur Waage er 31 árs tölvunarfræðingur sem byrjaði í BJJ í Mjölni í febrúar á þessu ári. Eftir að hann byrjaði í BJJ hefur hann misst um 40 kg á aðeins nokkrum mánuðum!

Þú settir nýlega inn mynd af þér á Facebook þar sem þú sýndir ótrúlegt þyngdartap þitt á aðeins nokkrum mánuðum. Segðu okkur aðeins frá því?

Ég var einfaldlega of stór og feitur! Ég er að læra tölvunarfræði þannig að ég sit mjög mikið fyrir framan tölvuna. Þegar ég var kominn í 125 kg áttaði ég mig á því hvað ég var orðinn stór. Þegar maður stækkar þá missir maður í raun sjónar á því hversu stór maður verður. Ég ákvað að taka mynd af mér í febrúar fyrir framan spegilinn og þar sé ég að ég er of feitur.

Ég hafði reynt að fara í megrun árið 2007, nema þá hætti ég eiginlega bara að borða. Ég borðaði ekkert í morgunmat, lítið í hádeginu og svo kannski tvær kjúklingabringur og hrísgrjón í kvöldmat. Þetta gekk, þannig séð, í hálft ár þar sem ég missti um 20 kg og fólk var að hrósa mér fyrir árangurinn en það vissi ekki að ég var ekki að borða neitt. Ég áttaði mig svo á því að ég var ekki með neitt mataræði eða neitt til að byggja á.

Núna þá ákvað ég að gera þetta skynsamara og hugsaði í upphafi að það væri ekkert bannað nema einn hlutur, sykur. Ég fór að skoða hvað ég var að borða og byrjaði á því að sleppa kannski sósunni með kjötinu. Næst prófaði ég að sleppa kartöflum og hrísgrjónum og fékk mér bara grænmeti í staðinn. Svona gekk þetta áfram og ég fór að átta mig betur á mataræðinu. Ég hef aldrei verið mikið fyrir grænmeti en ég áttaði mig á því að það var í raun bara kálið sem mér fannst ekki gott. Ég leitaði eftir góðu grænmeti og borðaði mikið af papriku, tómötum og spínati sem mér fannst mjög gott. Þannig gekk þetta bara hægt og rólega. Ég fann bara hvað mér fannst virka og þannig gekk þetta áfram.

Bjóstu við þessum árangri?

Nei í rauninni ekki. Ég tók mynd í febrúar þegar ég byrjaði og tók svo ekkert aftur mynd fyrr en í apríl því ég bjóst ekkert við að það væri eitthvað að gerast. Það var ekki fyrr en ég sá muninn á myndunum frá í febrúar og í apríl þar sem ég sá að það væri eitthvað að gerast. Ég varð mjög hissa þegar ég sá febrúar myndina því mér fannst ég vera ekkert öðruvísi. Svo hélt þetta bara áfram, ég fór niður í 100 kg og fannst það alveg frábært, svo 90 kg og fannst það líka alveg magnað. Núna er ég í kringum 80 kg og finnst það alveg geðveikt!

Það skemmtilega við Mjölni og brasilískt jiu-jitsu er að þú grennist ekki bara heldur færðu líka vöðva og þol og verður mun fimari. Mér finnst líka fyndið hvað ég er orðinn liðugur á þessu og hvað maður er farinn að beita líkamanum allt öðruvísi í daglegu amstri.

 

Lentiru á einhverjum þrösköldum á leiðinni? Komu tímar þar sem þú nenntir ekki að borða hollt eða mæta á æfingar?

Já ég sprakk þrisvar á mataræðinu og oft komu tímar þar sem mig langaði eiginlega ekkert á æfingu. Maður var að mæta á æfingu og þar var manni bara hnoðað saman í klukkutíma og svo fór maður svekktur heim. En svo fór ég að hugsa, lestin hægir stundum á sér, en svo lengi sem lestin heldur áfram og stoppar ekki þá er þetta í góðu lagi. Ég var kominn það langt að ég ætlaði aldrei að snúa til baka heldur að halda áfram. Ég fékk mér kannski hamborgara og gaf skít í þetta en áttaði mig á því að ég gæti ekki snúið til baka og farið í sama farið. Aftur á móti þegar ég fékk bláa beltið þá verðlaunaði ég mig með góðum hamborgara og átti það vel skilið.

Var það eitthvað við BJJ Sem kom þér á óvart?

Já, BJJ er miklu jákvæðari íþrótt en ég bjóst við. Í flestum íþróttum er mikill keppnisandi en í BJJ hef ég aldrei hitt eins mikið af fólki sem er svona jákvætt við að tapa. Fólkið hér í Mjölni er jákvætt þrátt fyrir hafa tapað kannski á æfingu, það heldur bara áfram í staðinn fyrir að svekkja sig á einhverju. Það vill halda áfram og læra á mistökin sín og maður fer sjálfur inn í þennan hugsunarhátt hér. Þannig síast íþróttin inn í mann og tæknin kemur allt í einu án þess að maður viti af því fyrr en eftir á jafnvel.

Hvað kom til að þú byrjaðir í BJJ?

Vinur minn var alltaf að æfa þetta og en ég  var ekkert svo spenntur fyrir þessu sjálfur. Ég ákvað þó að prófa þetta og skellti mér á Mjölni 101 grunnnámskeið og fannst það mjög skemmtilegt. Það var í raun ótrúlegt hvað fólk er opið hérna og hve auðvelt það er að kynnast fólkinu í íþróttinni. Það eru allir alltaf til í að sýna manni einhverja tækni og allir eru mjög opnir hér.

Hvað myndiru segja við fólk sem hugsar að það sé ekki í nógu góðu formi til að byrja í BJJ?

Þegar ég mætti í minn fyrsta tíma var ég gjörsamlega búinn á því eftir upphitunina. Upphitunin var samt bara rólegur og skemmtilegur leikur þar sem þjálfarinn sagði okkur að taka því rólega. Ég var eldrauður í framann, gat varla staðið og svitinn lak af mér, ég var bara búinn á því strax í upphituninni! Svona var þetta á fyrstu æfingunum en ef ég var alveg búinn á því hvíldi ég mig bara smá. Það er enginn að fara að dæma þig þó þú sért ekki í formi, þú ert allaveganna mættur hér! Það er mun betra en að sitja í sófanum heima. Fólk þarf bara að finna sín takmörk og gera það sem það getur og halda áfram að mæta. Ég byrjaði 125 kg í febrúar en er núna í kringum 80 kg og stefni á mitt fyrsta mót, Íslandsmeistaramótið, þann 17. nóvember.

Við þökkum Ólafi kærlega fyrir þetta viðtal og óskum honum góðs gengis í framtíðinni!

 

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular