Tuesday, April 16, 2024
HomeForsíðaViðtal við Shanti Abelha

Viðtal við Shanti Abelha

Shanti ásamt þeim sem mættu á námskeiðið hennar

BJJ svartbeltingurinn Shanti Abelha var stödd hér á landi yfir helgina og hélt frábært námskeið í Mjölni. Shanti er 31 árs gömul og æfir hjá Arte Suave í Danmörku sem er undir CheckMat. Shanti fæddist í Rio Brasilíu en á Indverska foreldra. Hún flutti frá Brasilíu 4 ára og ólst upp í Englandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Shanti hefur gífurlega mikla keppnisreynslu en hér er helsti árangur hennar:
2013 3rd World Championships Black
2013 3rd European Championships Black
2013 Abu Dhabi World Pro competitor
2012 1st Master’s International Black
2012 2nd CBJJE World Championships Black
2012 3rd European Championships Black
2012 Abu Dhabi World Pro competitor
2011 3rd World Championships Brown/Black
2011 3rd European Championships Brown/Black
2010 3rd European Championships Brown/Black
2009 3rd World Championships Brown/Black
2009 ADCC competitor

Hvenær og hvernig byrjaðiru að æfa BJJ?

Ég byrjaði þegar ég var 23 ára og það var eiginlega fyrir hreina tilviljun. Ég var að æfa sjálfsvarnarlistir eins og t.d. Kung-Fu en mest af því var standandi viðureign. Mér fannst vanta einhverja sjálfsvörn í gólfinu svo ég tók nokkra BJJ tíma. Vegna vinnu minnar fór ég til Brasilíu í 2 mánuði og á meðan ég var þar hvatti frændi minn mig til að prófa að æfa BJJ. Ég var ekki alveg viss með það í upphafi en mig langaði að læra meiri sjálfsvörn ég ákvað að slá til og prófa. Ég æfði í Brasilíu í 2 mánuði og líkaði ekkert sérstaklega við það fyrst (hlær). Þar var mikið af stórum og þungum strákum sem héldu mér undir í „side control“ og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera þar. Þegar ég fór svo aftur til Danmerkur þá hélt ég áfram að æfa og fór svo að keppa.

Hér í Mjölni er mikið af stelpum að æfa og það hefur orðið hálfgerð sprenging í fjölda stelpna sem æfa BJJ á undanförnum þremur árum. Er þetta eitthvað sem er að gerast um allan heim, eru fleiri stelpur byrjaðar að stunda BJJ?

Já það hefur eitthvað gerst á síðustu árum. Þegar ég byrjaði í mínu félagi var ég eina stelpan en núna erum við mun fleiri og erum oft 15 stelpur á æfingu. Ef við lítum svo á Heimsmeistaramótið í ár þá voru mjög margar stelpur að keppa í blábeltinga flokkunum svo það er greinilegt að það hefur orðið mikil fjölgun síðustu ár, sem er bara jákvætt.

Hver helduru að sé megin ástæðan fyrir því?

Íþróttin sjálf er að verða stærri og fleiri vita hvað þetta er. Félögin eru líka opnari fyrir því að fá iðkendur sem vilja ekki endilega vera „hardcore“ keppendur heldur vilja bara æfa og hafa gaman. Félögin eru að stuðla að umhverfi þar sem hver sem er getur bara mætt og æft. Í þannig umhverfi er auðveldara fyrir margar stelpur að koma og finnast þær vera velkomnar.

Mjölnir og fleiri félög eru með sérstaka stelputíma. Helduru að það sé góð leið til að fá fleiri stelpur til að æfa BJJ?

Já ég held að það sé mjög góð leið til að fá stelpur til að byrja því það er alltaf ógnandi fyrir stelpur að mæta í sal fullan af strákum í líkamlega erfiðri íþrótt. Stelpur er ekki eins vanar og strákarnir að vera í svona átökum þar sem strákarnir hafa oft reynslu úr gamnislag og alls konar tuski á sínum yngri árum sem margar stelpur hafa ekki kynnst. Þess vegna eru stelputímarnir góðir þar sem stelpurnar þurfa ekki að sýna sig og keppast við stráka á fyrsta degi. Það er samt mjög mikilvægt að stelpur æfi líka með strákum þó stelputímarnir séu góð byrjun. Það er gott að glíma við alla svo ég hvet alltaf stelpurnar til að mæta í blönduðu tímana líka.

Nú hefur þú mikla keppnisreynslu, er eitthvað mót eða ákveðinn sigur sem stendur upp úr hjá þér?

Ég held ég eigi mér engan uppáhalds sigur. Öll mót sem ég hef tekið þátt í hafa hjálpað mér að þroskast bæði sem manneskja og keppandi. Það er auðvitað alltaf sérstakt að vera á þessum stóru mótum eins og heimsmeistaramótinu þar sem er mikill fjöldi keppenda og öll stóru nöfnin eru þarna. Ég hef líka mjög gaman af Evrópumótinu þar sem það er oft stutt að fara þaðan frá Danmörku og þá eru oft margir liðsfélagar og þjálfarar á svæðinu sem er skemmtilegt.

Mannstu eftir fyrsta mótinu sem þú tókst þátt í?

Já það var í Brasilíu. Þá var ég búin að æfa í einn og hálfan mánuð þegar kom að mótinu en ég ákvað samt að slá til og prófa að keppa. Ég tapaði fyrstu glímunni 16-0 held ég (hlær) en það var mjög gaman og lærði mikið.

Margar stelpur eru oft ragar við að keppa, hvað viltu segja við þær?

Það er auðvitað einstaklingsbundið hvort að þú viljir keppa eða ekki, en ég held að það sé mjög mikilvægt að prófa að keppa fyrir BJJ ferðalagið þitt. Það er gott fyrir þig sem manneskju að keppa hvort sem maður vinnur eða ekki. Þetta snýst um að komast yfir einhvern þröskuld sem er til staðar. Ég held að það sé gott fyrir alla að prófa að minnsta kosti einu sinni að keppa. Maður lærir mjög mikið á sjálfan sig og kemst að því hvernig maður bregst við pressunni sem fylgir að keppa. Hvað er það versta sem getur gerst?

Hefuru keppt í MMA?

Nei, fyrir nokkrum árum hugsaði ég út í það að taka bardaga en það er nógu mikið að gera hjá mér eins og er og er orðin 31 árs. Ég ákvað að halda mig bara við BJJ og halda andltinu í lagi (hlær).

Er BJJ kennsla fullt starf hjá þér?

Nei, ég starfa sem verkfræðingur í fullu starfi hjá stóru lyfjafyrirtæki.

Hversu oft æfiru í viku?

Ég reyni að æfa svona 6 daga vikunnar. Það er sennilega ástæðan fyrir velgengni minni að ég hef alltaf æft vel. Þegar það er mikið að gera í vinnunni minni minnka ég æfingarnar en reyni að fara allavegna fjórum sinnum í viku. Fyrir keppnir æfi ég styrk og þol líka og þá tek ég tvo daga í viku þar sem ég æfi tvisvar á dag.

Einhver ráð sem þú vilt deila með þeim sem hafa áhuga á að byrja í BJJ eða eru nýbyrjaðir?

Finndu þér félag sem þér líkar við og þar sem þér líður vel. Félag þar sem kennarinn er góður og þú færð stuðning frá æfingarfélögunum þínum þannig að þér líði eins og þú sért hluti af einhverju.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular