spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentVinnuhesturinn Conor McGregor

Vinnuhesturinn Conor McGregor

Conor McGregor
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Conor McGregor hefur með færni sinni innan og utan búrsins skotist leifturhratt á stjörnuhimin MMA. Það eru ekki allir aðdáendur Conor McGregor en allir geta þó verið sammála um að maðurinn er algjör vinnuhestur.

Það eru kannski margir sem halda að Írinn kjaftfori sé einungis glans og glamúr. Maðurinn klæðist dýrustu fötunum, leigir glæsivillu í Las Vegas og keyrir um á splunkunýjum bílum. Þrátt fyrir þessa glansímynd er maðurinn algjör vinnuhestur í æfingasalnum og fáir sem leggja jafn hart að sér og hann.

Maðurinn er gjörsamlega hugfanginn af bardagaíþróttum og elskar að stúdera hreyfingu mannsins. Markmið hans er að verða sá besti í heimi og verða ríkur í leiðinni.

Það skiptir ekki máli hvað klukkan slær – þegar McGregor vill æfa þá fer hann og æfir. Þegar hann dvaldi hér á Íslandi æfði hann um miðja nótt í tómum Mjölniskastalanum ef svo lá við.

John Kavanagh, yfirþjálfari hans, hefur sagt að hann fái stundum textaskilaboð frá honum á laugardagsnóttu þar sem McGregor er í æfingasalnum að pæla í einhverri ákveðinni tækni eða hreyfingu.

Unnusta McGregor lét hafa eftir sér í viðtali að hann væri alltaf að hugsa um hreyfingar og tækni. Þau geta varla tekið göngutúr með hundinn án þess að McGregor sé að skuggaboxa eða æfa ákveðna tækni. Hún hefur einnig vaknað um miðja nótt þar sem McGregor er að skuggaboxa í svefnherberginu. Hann horfir oft á myndbönd af sjálfum sér á æfingum til að sjá hvað hann getur betur gert. Hann virðist einfaldlega vera hugfanginn af þessari íþrótt.

Eitt það athyglisverðasta við McGregor er hve opinn hann er fyrir nýjungum. McGregor er ekki fastur í sama stílnum heldur hefur hann bætt hlutum í vopnabúr sitt eins og snúningsspörkum, fellum og fleira í þeim dúr. Sterkasta vopnið hans er kannski boxið hans en ekki halda að hann sé einungis góður „striker“.

Hann eyðir einnig tíma í alls kins viðskipti utan búrsins. Sökum þessa hefur McGregor aðeins dvalið í 19 daga í Dublin á þessu ári. Á þessu ári hefur hann skrifað undir stóra samninga við Reebok, BudLight og Monster Energy. Ekki slæmt ár hjá Íranum skemmtilega.

Auk fyrrnefndra atriða æfir hann á eðlilegum tímum í minnst tvo til þrjá tíma í senn. Hann stundar einnig jóga og aðrar teygjur sem hjálpa honum að takast á við æfingaálagið.

Það er augljóst að McGregor hefur lagt gríðarlega hart að sér til að komast á þann stall þar sem hann er á í dag. Hvort hann komist hærra kemur svo í ljós þann 11. júlí.

Conor McGregor berst um fjaðurvigtartitilinn gegn Jose Aldo á UFC 189. McGregor verður svo sannarlega tilbúinn til að veita Aldo harða keppni.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular