Monday, May 27, 2024
HomeForsíðaVinsældir Demetrious Johnson

Vinsældir Demetrious Johnson

Johnson-Kyoji-HoriguchiÁ laugardaginn mun Demetrious Johnson verja fluguvigtarbeltið sitt gegn Kyoji Horiguchi í aðalbardaga UFC 186. Þrátt fyrir að vera talinn einn besti bardagamaður heims, pund fyrir pund, virðist almenningur hafa lítin áhuga á að sjá Johnson berjast.

Fáir reikna með að yfir 100 þúsund heimili kaupi UFC 186 á Pay Per View markaðnum. Demetrious Johnson virðist ekki fá mikið áhorf og er hinn nánast óþekkti Kyoji Horiguchi ekki að hjálpa til. Þetta virðist fara smávægilega í taugarnar á Johnson.

„MMA er eina íþróttin þar sem allt veltur á íþróttamanninum. Hvers vegna er það íþróttamanninum að kenna þegar varan selst ekki?“ spyr Johnson.

Vissulega kemur það í hlut UFC að kynna bardagann og bardagamennina en Johnson getur ekki firrað sig undan allri ábyrgð þegar kemur að kynningarmálum. Þrisvar hefur Demetrious Johnson verið í aðalbardaga kvöldsins á UFC on Fox bardagakvöldi en þau kvöld eru í opinni dagskrá og hafa milljónir manna möguleika á að sjá bardagana. Þrátt fyrir þessa tilraun UFC virðist almenningur (þ.e. ekki þessir harðkjarna bardagaaðdáendur sem horfa á alla bardaga) einfaldlega ekki hafa áhuga á að sjá Johnson berjast.

Demetrious Johnson og Ali Bagautinov mættust í aðalbardaga UFC 174 í fyrra. Bardagakvöldið fór fram í Kanada og var heimamaðurinn Rory MacDonald í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Samkvæmt sjónarvottum yfirgaf fjöldi áhorfenda höllina eftir bardaga MacDonald áður en bardagi Johnson og Bagautinov hófst.

Demetrious-JohnsonSkitpir stærðin máli?

Einhverjir vilja meina að almenningur hafi ekki áhuga á að sjá smáa menn berjast. 125 punda (57 kg) mennirnir líta ekki ógnvænlega út og telja sumir bardagaðdáendir að þeir gætu sigrað fluguvigtarmennina í bardaga – nokkuð sem hjálpar ekki við að selja almenningi bardaga. Þau rök standast ekki enda eru Floyd Mayweather og Manny Pacquiao mjög vinsælir en samt í minni þyngdarflokkunum.

Ábyrgðin verður að skrifast að einhverju leiti á Demetrious Johnson sjálfan. Vanalega heyrist ekki múkk í meistaranum fyrr en viku fyrir bardaga. Johnson gæti gert miklu meira til að markaðssetja sjálfan sig án þess þó að tala skít eða vera með dónaskap líkt og t.d. Chael Sonnen. Johnson gæti gert heimildarþætti um sig líkt og Alistair Overeem gerði. The Reem gerði Overeem að einum vinsælasta MMA kappa heims þrátt fyrir að vera ekki í UFC.

Overreem er með um 89 þúsund ‘Like’ á Facebook síðu sinni á meðan Demetrious Johnson er með um 11 þúsund. 11 þúsund ‘Like’ er í raun ótrúlega lítið en til samanburðar er Gunnar Nelson með 75 þúsund og Brendan Schaub er með 35 þúsund. Ef Johnson vill fleiri aðdáendur og meira áhorf þarf hann að gera meira sjálfur.

Skortur á vinsældum gæti líka verið vegna mótherjanna. Johnson virðist vera þessa stundina miklu betri en allir aðrir í fluguvigtinni og hafa fáir ógnað honum af einhverju viti. Fáir efast um útkomu bardaganna – Johnson er einfaldlega mikið betri.

Johnson þarf verðugan andstæðing, einhvern sem verður hans erfiðasta áskorun og þannig gæti smá saga og rígur skapast milli keppandanna. Johnson hefur nú þegar sigrað alla þá sterkustu í fluguvigtinni. Annar bardagi gegn John Dodson gæti verið skemmtileg áskorun fyrir meistarann en Dodson hefur verið frá vegna hnémeiðsla en snýr aftur til leiks í maí. Sigri Dodson Zach Makovsky í maí fær hann líklegast næsta titilbardaga. Fyrir utan Dodson eru ekki margir spennandi valmöguleikar í boði.

Draumabardagi milli TJ Dillashaw (bantamvigtarmeistari UFC) og Johnson gæti fært fluguvigtinni athygli en ekkert bendir til að sá bardagi sé á döfinni.

Johnson á skilið meiri athygli enda einn færasti bardagamaður heims. Til þess að Johnson fái þá virðingu sem hann á skilið þarf margt að breytast – þar á meðal framkoma Demetrious Johnson.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular