Vitor Belfort er ekki lengur hættur í MMA. Belfort hefur samið við ONE Championship í Asíu og er hann enn einn bardagamaðurinn sem tekur hanskana af hillunni.
Vitor Belfort barðist síðast við Lyoto Machida í maí. Þar var hann rotaður í 2. lotu en eftir bardagann sagðist hann vera hættur að keppa í MMA. Belfort hélt tilfinningaríka ræðu í búrinu eftir tapið þar sem hann skildi hanskana eftir í búrinu til marks um að hann væri hættur.
Á síðustu mánuðum hefur Belfort ýjað að því að hann væri á leið aftur í búrið. Nú hefur hann samið við ONE Championship og er hann enn einn bardagamaðurinn sem getur ekki staðið við þá stóru ákvörðun að hætta í MMA.
Ekki er vitað hvenær eða gegn hverjum hann muni berjast í ONE en bardagasamtökin hafa fengið til sín mörg þekkt nöfn á síðustu mánuðum eins og Demetrious Johnson, Eddie Alvarez, Sage Northcutt og nú Belfort. Í ONE eru ekki óvænt lyfjapróf eins og í UFC og er því spurning hvort við sjáum ferskari útgáfu af Belfort í ONE.