Þeir Wanderlei Silva og Dan Henderson eru hugsanlega á síðustu metrunum á ferli sínum. Silva, 38 ára, og Henderson, 43 ára, gætu leitt hesta sína saman í síðasta sinn en nokkrar hindranir standa þó á vegi þeirra.
Fáum við að sjá Wanderlei Silva fullkomna þríleik sinn við Dan Henderson? Silva hefur verið duglegur að skora á öll stóru nöfnin í sínum þyngdarflokki – þar á meðal Vitor Belfort, Chael Sonnen og Luke Rockhold – en Belfort er að fara að keppa um beltið og Sonnen hefur verið settur í tveggja ára bann og er líklega ekki að fara koma aftur. Dan Henderson hefur einnig svarað fyrir sig á Twitter og samþykkt áskorun Silva.
Það væri líka mjög spennandi að sjá þennan bardaga verða að veruleika. Wanderlei Silva vann fyrstu viðureign þeirra á dómaraúrskurði á Pride 12 árið 2000. Þeir kepptu svo aftur árið 2007, þar sem þeir kepptu um millivigtarbelti Pride. Þar náði Henderson að taka beltið frá Silva með rothöggi, en Silva fékk aldrei tækifæri til að ná beltinu sínu aftur því þeir fóru báðir frá Pride stuttu eftir bardagann.
Silva sagðist ætla að biðja Henderson um að koma með Pride beltið í bardagann og að sigurvegarinn myndi taka það með sér heim í enda kvöldsins.
Það er samt spurning um hvort þessi bardagi geti átt sér stað þar sem Silva neitaði nýlega að gangast undir lyfjapróf og fór fyrir nefnd NSAC, sem mun líklegast setja hann í langt bann líkt og Sonnen. Einnig er erfitt að segja um hvort Henderson, sem er nú orðinn 43 ára gamall, verði ennþá að keppa þegar Silva getur loksins keppt aftur.