Fabricio Werdum barðist við Travis Browne í gær á UFC 203. Eftir bardagann sparkaði hann aðeins í þjálfara Travis Browne.
Fabricio Werdum vann Travis Browne eftir dómaraákvörðun. Þjálfari Browne, hinn umdeildi Edmund Tarverdyan, hrópaði einhverju að Werdum sem brást við með því að sparka í hann.
„Hann sagði mér að halda kjafti og sagði mikið af ljótum hlutum. Ég veit ekki hvers vegna en hann öskraði á mig og var örugglega bara leiður eftir að nemandi hans tapaði. Ég veit ekki af hverju hann var að öskra á mig,“ sagði Werdum við Fight Network eftir bardagann.
Aðspurður hvort hann sjái eftir sparkinu svaraði hann neitandi. „Nei, ég var bara að halda góðri fjarlægð. Ég sparkaði ekki fast, þetta var ekki neitt. En hann er boxþjálfari og vildi kýla mig í andlitið. Ég hélt bara fjarlægðinni.“
Werdum óskaði eftir bardaga við Stipe Miocic og áttu þeir skemmtilegt spjall í lok viðtalsins. Werdum segist vera í sálrænu áfalli eftir bardagann gegn Miocic og verður hræddur í hvert sinn sem hann sér slökkviliðsbíl enda er Miocic slökkviliðsmaður. Werdum vill takast á við þennan ótta sinn við slökkviliðsmenn með því að berjast við Miocic.