Georges St. Pierre sagði í gær að hann hefði rift samningi sínum við UFC. UFC er ekki á sama máli miðað við yfirlýsingu sem bardagasamtökin sendu frá sér.
„Georges St. Pierre er enn undir samningi við Zuffa, LLC [móðurfyrirtæki UFC]. Zuffa mun heiðra sinn hluta samningsins og ætlast til þess að St. Pierre geri hið sama,“ segir í yfirlýsingunni.
St. Pierre sagðist vera samningslaus í gær í The MMA Hour og kveðst vera laus allra mála eftir að hafa rift samningi sínum við UFC. St. Pierre átti í viðræðum við UFC en viðræðurnar sigldu í strand eftir að UFC var keypt af WME-IMG í júlí.
Georges St. Pierre vildi fá bardaga í UFC og setti eindaga á samningstilboð frá bardagasamtökunum en tilboðið fékk hann aldrei. Lögfræðingur hans rifti því samningnum en málinu er langt í frá lokið.
Miðað við þessa yfirlýsingu UFC er framundan löng barátta í réttarsölum og ætlar UFC ekki að sleppa Georges St. Pierre svo auðveldlega.