spot_img
Monday, November 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHver er þessi Albert Tumenov?

Hver er þessi Albert Tumenov?

albert tumenovEins og við greindum frá fyrr í dag mun Gunnar Nelson mæta Rússanum Albert Tumenov í Rotterdam. En hver er þessi Tumenov og hvernig bardagamaður er hann?

Albert Tumenov er fæddur í Kabardino-Balkaria sem er sjálfsstjórnunarlýðveldi í Norður-Kákasus svæðinu í Rússlandi.

Margir harðkjarna bardagaaðdáendur voru spenntir fyrir komu hins 22 ára Tumenov í UFC. Af myndböndunum að dæma var Tumenov einstaklega fær standandi og var talið að þarna færi mikið efni á ferð.

Spennan varð talsvert minni eftir að hann tapaði í frumraun sinni í UFC gegn Ildemar Alcantara. Bardaginn var harður og jafn en Alcantara fór með sigur af hólmi eftir klofna dómaraákvörðun.

Síðan þá hefur hann farið hamförum í UFC og sigrað fimm bardaga í röð. Af þessum fimm sigrum hafa þrír komið eftir rothögg og hefur hann komist á topp 15 á styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Í dag er hann sagður vera næsta stóra stjarnan í veltivigtinni og telja margir að hann geti barist um titilinn í náinni framtíð.

Það má segja að Tumenov sé ekki ósvipaður og Brandon Thatch sem Gunnar sigraði í fyrra. Líkt og Thatch er Tumenov spáð bjartri framtíð í flokknum en báðir eru þeir hrikalega hættulegir í standandi viðureign.

Tumenov byrjaði sex ára gamall að æfa karate og box en 11 ára gamall byrjaði hann að æfa bardagalist sem kölluð er „hand-to-hand combat“. Í íþróttinni berjast menn með höfuðhlífum og eru reglurnar ekki ósvipaðar og í MMA nema engin uppgjafartök eru leyfð (en þó má taka köst og fellur).

Í fyrstu æfði Tumenov bardagaíþróttir sem sjálfsvörn. Þegar hann var 17 ára gamall sá hann að þetta væri nokkuð sem hann gæti gert að atvinnu. 18 ára gamall tók hann sinn fyrsta MMA bardaga sem hann sigraði með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.

Af 17 sigrum hans hafa 11 komið eftir rothögg og hefur hann klárað tíu bardaga í fyrstu lotu. Tumenov hefur sýnt að hann er mjög fær standandi og virðist taka stöðugum framförum í hvert sinn sem hann berst.

Hann er tvöfaldur rússneskur meistari í „hand-to-hand combat“ og á ýmis afrek að baki í boxinu líka.

Hann ber viðurnefnið Einstein þar sem hann var gjarnan uppnefndur Albert Einstein á skólaárum sínum en nafnið á ágætlega við í dag þar sem hann er nokkuð snjall í búrinu. Þá er hann stundum kallaður Mr. Left Hook enda finnst honum ekki leiðinlegt að slengja einum vinstri króki í andstæðinginn. Vinstri krókurinn hans er einn sá hættulegasti í veltivigtinni.

Tumenov kemur með langar fléttur, velur höggin sín vel og endar oft flétturnar á háspörkum. Háspörkin virka áreynslulaus og eru þetta ekki svona nýþung spörk eins og í Muay Thai heldur frekar léttari háspörk eins og í karate. Þannig er Tumenov í betra jafnvægi þegar hann sparkar og getur fylgt spörkunum eftir með hnefahöggum. Því eru flétturnar hans oft langar en á sama tíma er hann dálítið opinn fyrir höggum sjálfur og fær hann því alltaf nokkur högg í sig. Þess má geta að Tumenov hefur klárað þrjá bardaga með háspörkum.

Tumenov var tekinn fjórum sinnum niður í sínum fyrsta bardaga í UFC en hefur annars náð að halda sér standandi. Gunnar gæti hæglega náð Tumenov niður og þar er Gunnar sterkari – svo einfalt er það.

Til að gera langa sögu stutta er óhætt að segja að Tumenov sé stórhættulegur andstæðingur. Bardagaaðdáendur ytra telja Tumenov sigurstranglegri en Gunnar.

Bardaginn fer fram sunnudaginn 8. maí í Rotterdam í Hollandi og verður bardagi Gunnars og Tumenov ofarlega á bardagakvöldinu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular