spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í apríl 2021

10 áhugaverðustu bardagarnir í apríl 2021

Apríl mánuður er genginn í garð og verða hörku bardagar á dagskrá. Öll stærstu bardagasamtökin verða með góða bardaga þennan mánuðinn og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta spilast.

UFC tekur sér frí um páskana en verður annars með þrjú bardagakvöld í apríl. Eftir margra mánaða pásu birtist Bellator aftur með sitt fyrsta bardagakvöld á árinu. Bellator setur allt á fullt í apríl og verða þrjú bardagakvöld hjá Bellator í apríl. ONE Championship verður síðan með fimm kvöld í mánuðinum þar sem má finna áhugaverða bardaga á hverju kvöldi. Kíkjum á þetta.

10. Christian Lee gegn Timofey Nastyukhin (ONE on TNT 2, 14. apríl)

Þessi bardagi er upp á léttvigtartitil ONE Championship. Christian Lee er eitt af andlitum ONE ásamt systur sinni, Angela Lee. Christian hefur barist alla 17 bardaga sína í ONE og er ríkjandi léttvigtarmeistari. Andstæðingur hans að þessu sinni er Timofey Nastyukhin sem er helst þekktastur fyrir að hafa klárað Eddie Alvarez í frumraun Bandaríkjamannsins í ONE. Rússinn hefur verið duglegur að klára bardaga sína og er hættulegur.

Spá: Christian Lee tekur þetta með uppgjafartaki í 2. lotu.

9. Adriano Moraes gegn Demetrious Johnson (ONE on TNT 1, 10. apríl)

Demetrious Johnson er kominn með gull í ONE eftir að hafa unnið fluguvigtarmót (135 pund) ONE árið 2019. Johnson hefur unnið alla þrjá bardaga sína í ONE síðan hann yfirgaf UFC en við fengum ekkert að sjá hann árið 2020. Adriano Moraes er ríkjandi fluguvigtarmeistari í ONE og verða beltin sameinuð þann 10. apríl. Sá brasilíski hefur verið í ONE í sjö ár og unnið 9 af 12 bardögum sínum í ONE.

Spá: DJ er orðinn 34 ára gamall en hann er ennþá einn af þeim allra bestu í heiminum. DJ vinnur eftir dómaraákvörðun.

8. Arnold Allen gegn Sodiq Yusuff (UFC Vegas 23, 10. apríl)

Þessi er mikilvægur í fjaðurvigtinni. Þessir eru í 10. og 11. sæti á styrkleikalistanum og verið á góðri siglingu. Allen hefur unnið alla sjö bardaga sína í UFC og Yusuff alla sína fjóra. Yusuff mun leitast við að halda þessu standandi og skiptast á höggum á meðan Allen ætlar sennilega að fara með þetta í gólfið.

Spá: Þessi verður jafn og spennandi en Allen mun á endanum vinna eftir dómaraákvörðun.

7. Patricio ‘Pitbull’ Freire gegn Emmanuel Sanchez (Bellator 255, 2. apríl)

Fjaðurvigtarmót Bellator er alveg að fara að klárast en hér mætast þeir Pitbull og Sanchez í seinni undanúrslitaviðureign mótsins. Sigurvegarinn hér mætir A.J. McKee sem tryggði sér sæti í úrslitum í nóvember í fyrra. Pitbull er ríkjandi meistari og flokkast þetta sem titilvörn gegn Sanchez. Pitbull sigraði Sanchez árið 2018 í titilbardaga þar og verður þetta því í annað sinn sem þeir mætast.

Spá: Sanchez er grjótharður en Pitbull er einfaldlega betri og vinnur eftir dómaraákvörðun.

6. Vadim Nemkov gegn Phil Davis (Bellator 257, 16. apríl)

Vadim Nemkov tók léttþungavigtarbeltið af Ryan Bader í fyrra. Nemkov kemur hér í sína fyrstu titilvörn og er bardaginn hluti af 8-manna útsláttarmóti Bellator í léttþungavigt. Þetta er endurat en Nemkov sigraði Phil Davis eftir klofna dómaraákvörðun í nóvember 2018.

Spá: Þetta verður jafnt eins og síðast og vinnur Nemkov aftur eftir dómaraákvörðun.

5. Nina Ansaroff gegn Mackenzie Dern (UFC Vegas 23, 10. apríl)

Þessi er áhugaverður í strávigtinni. Nina Ansaroff er nr. 5 í strávigtinni en hefur verið fjarverandi vegna barneigna og því ekki barist síðan í júní 2019 þegar hún tapaði fyrir Tatiana Suarez. Dern hefur verið á fleygiferð og unnið þrjá bardaga í röð með flottum frammistöðum. Dern er að taka stöðugum framförum og myndi taka hástökk í toppbaráttuna með sigri hér.

Spá: Ansaroff er eldri og reyndari en Dern hefur fleiri vopn til að klára bardagann. Dern klárar Ansaroff með uppgjafartaki í 2. lotu og Ansaroff leggur hanskana á hilluna.

4. Robert Whittaker gegn Kelvin Gastelum (UFC Vegas 24, 17. apríl)

Þessi bardagi átti að fara fram 2019 en sama dag og bardaginn átti að eiga sér stað þurfti Whittaker að fara í neyðaruppskurð eftir kviðslit. Þá var Whittaker ríkjandi meistari en nú hefur hann tapað beltinu til Israel Adesanya og stefnir á að endurheimta beltið. Whittaker hefur unnið tvo bardaga síðan hann tapaði beltinu (gegn Darren Till og Jared Cannonier) og gæti tryggt sér annan bardaga gegn Israel Adesanya með sigri á Gastelum. Gastelum var á þriggja bardaga taphrynu þar til hann sigraði Ian Heinisch á dögunum.

Spá: Whittaker er ennþá með þetta og sigrar Gastelum eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.

3. Valentina Shevchenko gegn Jéssica Andrade (UFC 261, 24. apríl)

Samkeppnin hefur ekki verið mikil fyrir Valentina Shevchenko síðan hún tók fluguvigtarbeltið. Að þessu sinni fær hún Jessica Andrade sem er fyrrum strávigtarmeistari og ætti það að verða alvöru bardagi. Andrade byrjaði vel í fluguvigtinni og kláraði Katlyn Chookagian með skrokkhöggi í 1. lotu í fyrra. Hún er með alvöru sleggjur og er með vopn sem geta klárlega ógnað meistaranum.

Spá: Þó Andrade sé talsvert meiri ógn en síðustu andstæðingar Shevchenko þá er Shevchenko bara of góð og vinnur eftir dómaraákvörðun eftir tæknilega frammistöðu.

2. Zhang Weili gegn Rose Namajunas (UFC 261, 24. apríl)

Strávigtin er langbesti kvennaflokkurinn í UFC og verður þessi gjörsamlega geggjaður. Rose Namajunas er auðvitað fyrrum meistari en tapaði beltinu til Jessica Andrade. Andrade tapaði svo beltinu til Weili Zhang en Namajunas náði hefndum gegn Andrade í fyrrasumar í skemmtilegum bardaga. Zhang hefur ekki barist síðan hún sigraði Joanna Jedrzejczyk í besta bardaga ársins í fyrra og verður þetta mjög tæknilegur bardagi.

Spá: Rose Namajunas er mjög tæknileg en Zhang er með fáa augljósa veikleika. Zhang klárar þetta með TKO í 3. lotu.

1. Kamaru Usman gegn Jorge Masvidal (UFC 261, 24. apríl)

Kannski ekki bardagi sem margir voru að óska eftir en bardaginn sem mun skila Kamaru Usman góðum tekjum. Fyrri bardaginn í júlí í fyrra var nokkuð öruggur sigur fyrir Usman en þann bardaga tók Masvidal með viku fyrirvara. Núna fær hann alvöru æfingabúðir og getur tryggt sér alvöru belti. Usman kláraði Gilbert Burns í febrúar eftir frábæra frammistöðu og er hægt og rólega að byggja upp flotta ferilskrá.

Spá: Þó Masvidal fái eitt ár í að undirbúa sig fyrir Usman þá mun Usman alltaf vinna. Usman vinnur eftir dómaraákvörðun.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular